Risalán og gjaldeyrishöft

Óþolinmótt fé...620 milljarðar = risalán...620 milljarðar Jöklabréf

Ein af þeim aðgerðum sem gripið var til, eftir hrun bankanna, var að setja gjaldeyrishöft til þess að verja krónuna frekari falli. Helsta ógnin við gjaldmiðilinn var óþolinmótt fé jöklabréfaeigenda.

Erlendar fjármálastofnanir gáfu út jöklabréf sem seld voru "óþekktum" aðilum, íslenskum eða erlendum. Þessar stofnanir endurfjárfestu samsvarandi fjárhæði í íslenskum ríkisskuldabréfum til þess að gengistryggja sig. Þetta þýðir í raun að kaupendur jöklabréfa veðjuðu á krónuna á sama tíma og bankarnir og erlendir vogunarsjóður tóku stöðu gegn henni.

Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett lokaðist fjármagn jöklabréfaeigenda inni. Jöklabréfaeigendur hafa því átt einan þann kost að endurfjárfesta fjármuni sína á Íslandi. Staða jöklabréfa og erlendra krónueigna er talin vera 400 til 600 milljarðar ISK en sumir telja að fjárhæðin sé um 620 milljarðar.

Viðskipti með jöklabréf eru í raun íslenska ríkinu óviðkomandi. Þetta voru viðskipti á milli erlendra fjárfestingabanka og viðskiptavina þeirra með verðbréf í íslenskum krónum.

Gjaldeyrisforðinn

Eitt af áhyggjuefnum Seðlabanka Íslands um þessar mundir er að ekki sé unnt að aflétta gjaldeyrishöftunum samkvæmt áætlun vegna seinkunnar á endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrirhugað er að taka lán upp á 620 milljarða ISK til þess að styrkja gjaldeyrisforðann sem nú er 490 milljarðar en þar af eru 210 milljarðar hrein eign. Hvers vegna þarf lítið efnahagskerfi 1.100 milljarða gjaldeyrisforða? Til samanburðar má geta að gjaldeyrisforðinn var 163 milljarðar árið 2007 og 67 milljarðar árið 2005. Já, segir kannski einhver "en það sýndi sig að þetta var allt of lítill varaforði." Jú rétt er það en við gjörólíkar aðstæður. Bankarnir voru risavaxnir og Seðlabankinn átti að geta staðið undir lánum til þrautavara.

Í greinargerð Seðlabankans til forsætisráðherra, 6. október síðastliðinn, segir m.a. um mikilvægi rausnarlegs gjaldeyrisforða "Það eflir getu Seðlabankans til þess að mæta hugsanlegu útstreymi og dregur um leið úr líkum á því að til þess komi. Aukinn forði er því mikilvægur til þess að jafna óhóflegar skammtímagengissveiflur sem gætu fylgt afnámi gjaldeyrishafta fyrst í stað." Sérstaka athygli vekur að Seðlabankinn telur að gjaldeyrisforðinn (risalánið) dragi úr líkum á útstreymi en litlar líkur eru á því að þessi kenning standist enda verður traust á íslensku efnahagskerfi ekki reist á einni nóttu heldur er það langtímaverkefni. Öllu líklegra er að aðilar sjái risalánið sem farseðil úr landi sem einkennist af fjármálaóreiðu. Að hræðsla muni ráða för. Seðlabankinn víkur einnig að því að "væntingar um ávöxtun þegar til lengri tíma er litið vegi þyngra en sú áhætta sem tekin er til skamms tíma með áframhaldandi fjárfestingum í krónum" ef efnahagsstefnan er trúverðug.

Það er ávallt áhugavert þegar hagfræðingar setja sig í spor sálfræðinga og fara að telja sig sjá fyrir um hegðun fólks. Ég á satt að segja erfitt með að trúa að einstakir fjárfestar fari að kynna sér efnahagsstefnu yfirvalda og hvað þá heldur að túlka trúverðugleika hennar þegar þeir taka ákvörðun um það hvort þeir eigi að koma fjármunum úr landi. Gleymum því ekki að þetta eru aðilar sem tóku stöðu með krónunni þegar aðrir veðjuðu gegn henni.

Risalánið frá AGS

Það hefur margoft verið sagt að ekki eigi að nota risalánið heldur geyma það í banka í Bandaríkjunum og greiða af því 20 milljarða á ári í vaxtamun. En samkvæmt ofangreindri tilvitnun í greinargerð Seðlabankans virðist eiga að grípa til þessa varasjóðs þegar gjaldeyrishöft verða afnumin. Gríðarleg áhætta fylgir þessari fyrirætlun. Ef fjármunir rjúka úr landi þannig að ganga þurfi á þennan forða í Bandaríkjunum hækkar vaxtakostnaðurinn vegna hans og getur þá orðið allt að 35 til 40 milljarðar, þ.e.a.s. greiða þarf hreina vexti í stað vaxtamunar. Það mun síðan lenda á komandi kynslóðum að endurgreiða þetta risalán.

Áætlun um að taka risalán í erlendum gjaldmiðli og sleppa síðan gjaldeyrismarkaðnum frjálsum vekur spurningar. Eru uppi áform um að "bjarga" jöklabréfaeigendum og öðrum sem þurfa að koma fármagni úr landi með því að taka risalán sem lendir á íslenskum skattgreiðendum?

Fagfjárfestar

Jöklabréfaeigendur eru að öllum líkindum fag- og stofnanafjárfestar sem höfðu alla burði til þess að taka upplýsta ákvörðun um áhættuna sem fylgdi því að fjárfesta í jöklabréfum öfugt við það sem segja má um flesta almenna hluthafa í bönkunum sem hafa þurft að taka því tapi sem fylgdi hruni bankanna.

Það er fullkomlega réttmæt spurning að spyrja hvort íslenskur almenningur eigi að taka sitt tap af hruninu, s.s hækkun skulda og greiðslubyrði, verðhækkanir, tap hlutafjár í bönkum, tap á peningamarkaðsjóðum, launalækkanir og atvinnumissi en auk þess að fjármagna bætur til fagfjárfesta. Þessi viðskipti með jöklabréf komu íslenskum almenningi ekkert við.

Umræðan á Íslandi, eftir bankahrunið, hefur að miklu leyti snúist um traust. Lögð hefur verið ríkuleg áhersa á að spyrða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við hugtakið traust en í umræddri greinargerð Seðlabankans til forsætisráðherra segir "litið er á aðkomu sjóðsins sem heilbrigðisvottorð fyrir þá efnahagsstefnu sem mótuð hefur verið." Þetta er í nokkurri mótsögn við það sem Center of Economic Policy Research hefur um sjóðinn að segja.  En CEPR segir m.a. um spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í löndum þar sem hann hefur haft aðkomu... að þær feli í sér munstur mistaka sem vekja spurningar um hlutleysi sjóðsins.

Vantraust á AGS

Reynsla Ríkisstjórnarinnar á aðkomu AGS ætti að vera farin að vekja með þeim efasemdir um heilindi sjóðsins í ráðgjöf hans. Það hljóta að vera farnar að vakna spurningar einhvers staðar í hugskoti stjórnmálamanna hvort að þessari lánastofnun sé treystandi fyrir völdum á Íslandi. Það liggur fyrir að AGS er vopn Breta og Hollendinga sem þeir beita til þess að þvinga Íslendinga til þess að afsala sér rétti til þess að fara með ágreining fyrir dómstóla jafnvel þótt í ljós komi að kröfur þeirra séu ólögmætar. Það liggur einnig fyrir að AGS notar endurskoðun efnahagsáætlunar sem þeir sjálfir hafa hannað til þess að halda ríkisstjórninni í gíslingu og þvinga fram óréttmæta niðurstöðu í Icesave-deilunni.
mbl.is Tímabært að hefja afnám hafta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Besta ráðið væri að lýsa yfir greisðlustöðvun. Sársaukafullt kannski, en hagkvæmast þegar litið er til lengri tíma. Það sýnir reynsla annara þjóða sem hafa farið þessa leið út úr efnahagskreppu.

Burt með IMF, handbendi gömlu nýlenduveldanna!

Guðmundur Ásgeirsson, 26.10.2009 kl. 15:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jakobína, þetta er mjög góð grein hjá þér og ber af, eins og gull af eiri, pólitísku ofstækispistlunum, sem þú skrifar oftast.

Hægt er að taka undir nánast hvert orð í þessum.

Skrifaðu fleiri svona, en færri af þessum venjulegu.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2009 kl. 16:07

3 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Mjög góð samantekt. Takk.

Birgir Viðar Halldórsson, 26.10.2009 kl. 16:34

4 identicon

Frábær úttekt - og orð Axels um fyrri pistla segja mest um hann sjálfan en þig - ég hef aldrei orðið var við annað en mikla fagmensku hjá þér.

En það er eitt sem ég skil ekki alveg:  Þú segir að erlendar fjármálastofnanir hafi endurfjárfest í íslenskum ríkisskuldabréfum til að gengistryggja sig.  Þessi lán - og þá ríkisskuldabréfin - voru víst 400-600, jafnvel 620 milljarðar. 

Een... var okkur ekki sagt að ríkið væri skuldlaust?  Hvernig geta verið til ríkisskuldabréf upp á 620 milljarðar ef ríkið er skuldlaust?

Það er eitthvað sem er verulega rotið í þessu öllu...

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 16:57

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já Steingrímur ég hef líka spurt þessarar spurningar

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.10.2009 kl. 17:08

6 identicon

Frank McKenna+Toronto Dominion+http://www.bilderberg.org/1994.htm+Davíð Oddsson=200 milljarða í innistæðubréfum Seðlabanka Íslands ... mistök eða vinargreiði? Við erum aðeins að krafsa á yfirborðinu.

L (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 20:16

7 identicon

“Til lausnar þessu vandamáli var kallaður til aðalhagfræðingur TD, Svisslendingurinn Beat Siegenthaler, sem er vel lýst í bók Ásgeirs Jónssonar Why Iceland. Á Íslandi var hann uppnefndur „Up-Beat“ vegna vegna þess hve jákvæður hann var gagnvart íslensku krónunni þegar byrjað var að gefa út jöklabréfin. Up-Beat hafði mjög góð samskipti við Seðlabankann, enda mikill talsmaður þeirrar hávaxtastefnu sem bankinn fylgdi.

Margir íslenskir bankamenn furðuðu sig á því að Up-Beat gat iðulega fengið fundi með yfirmönnum Seðlabankans með sólarhrings fyrirvara á meðan að greiningardeildir íslensku bankanna fengu ekki einu sinni að sitja fréttamannafundi bankans í tengslum við vaxtaákvarðanir.

Það var í raun ekkert skrítið því "Up-Beat" vann fyrir Toronto Dominiom.

Wednesday, November 08, 2006

A conference: The Icelandic Bond Market – New Opportunities, will be held November 15th at Hotel Nordica, Reykjavik.

The conference is held by the NDMA in collaboration with the five Primary Dealers, HFF and ICEX.

The focus of the conference will be foreign investment in Icelandic Bonds and Glacier Bonds and a new website that has the role of communicating information on Icelandic Bonds and Economic Developments. Speakers include: Icelandic Minister of Finance, Mr. Árni M. Mathiesen, Mr. Andrew Bosomworth, Executive VP and Senior Fund Manager of PIMCO, a leading global fixed income fund manager, and Mr. Beat Siegenthaler, Senior Strategist of Toronto Dominion Securities that has been a driving force in the promotion of Glacier bonds.

Skítalykt?

L (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 21:01

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

jú, Jakobína, erlendu lánin verða notuð til að "bæta" erlendum "fagfjárfestum" meint tap þeirra. Eftir sitjum við og börn okkar og borgum reikningin.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 26.10.2009 kl. 23:42

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir innlitið strákar og ágæta viðbót og söguskýringar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 27.10.2009 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband