Eiga börnin svo bara að þegja

Af tilefni mikillar umræðu um stöðu barna í kreppunni endurbirti ég hér grein sem birtist í Morgunblaðinu í október.

Birt í Morgunblaðinu 19. október 2008

Einhvers staðar stendur orð eru til alls fyrst. Orð og merkingin sem þeim er gefin eru nú beitt vopn í höndum ráðamanna í baráttu sinni við „skrílinn". Forsætisráðherra hefur kosið að kalla fólkið sem tekur þátt i mótmælum skríl. Ég hef verið að taka þátt í mótmælum. Ég er fjögurra barna móðir og mæti á mótmælin fyrir hönd barna minna sem ég vil að eigi framtíð en þá uppnefnir forsætisráðherrann mig og kallar mig skríl.

Annað orð sem ég vil ræða hér og hefur fengið undarlega merkingu í munni ráðamanna er orðið ábyrgð. Merking orðsins verður ekki til í einangrun heldur verður merking þess til við gefnar forsendur.

Sá sem ber ábyrgð þarf að hafa vald, valkosti og upplýsingar eða aðgang gagnvart þeim fyrirbærum sem gefa tilefni til ábyrgðar.

Hollendingurinn sem lagði inn fjármuni á reikninga Icesave gerði það með það í huga að fá góða ávöxtun. Hafi vextirnir verið hærri en stýrivextir í Hollandi þýðir það að Hollendingurinn var að fá greitt fyrir að taka áhættu.

Þegar Hollendingurinn ákveður að eiga viðskipti við Icesave hefur hann vald, valkosti og getur leitað sér upplýsinga um öryggi fjárfestingarinnar og regluverkið í kringum Icesave reikninga. Bæjarfélög í Hollandi eru að sýsla með almannafé og ábyrgð þeirra liggur m.a. í því að velja þeim trygga geymslu og ávöxtun. Þessi rök gilda einnig um Landsbankann, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnina. Þessir aðilar hafa vald, valkosti og upplýsingar.

En hvað með börnin mín hafa þau völd, valkosti og upplýsingar í þessu samhengi? Vissu þau að Hollendingurinn var að fara að gera vonda fjárfestingu og höfðu þau þann valkost eða vald til þess að stöðva hann? Nei. Af hverju bera þau þá ábyrgð? Hvers vegna eru þau bótaskyld?

Hvert sækir þessi furðulega hugmynd um ábyrgð barna minna lögmæti sitt. Jú, stjórnvöld hafa ákveðið að taka þessi fyrirbæri, þ.e.a.s. börnin mín og Hollendinginn sem vildi góða ávöxtun og troða þeim inn í regluverk. Þetta regluverk skapar „réttlæti" sem engin fordæmi eru fyrir.

Hvað þýðir þetta fyrir börnin okkar? Geta atburðir verið að gerast hvar sem er í heiminum og þau dregin til ábyrgðar með því að spyrða þau við atburðinn í regluverki?

Með því að gefa þessari framkvæmd réttmæti er verið að skapa samfélag meðal þjóðanna þar sem einstaklingar eru rúnir allri vernd. Sakleysið er svívirt. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

"Ég er fjögurra barna móðir og mæti á mótmælin fyrir hönd barna minna"

Það er svolítið annað og ábyrgt en að senda bornin til að mótmæla fyrir sig.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.1.2009 kl. 03:42

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er ekki síst þeirra vegna sem við megum ekki gefast upp.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2009 kl. 08:48

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Get tekið undir það sem hér er skrifað, ég mótmæli líka fyrir hönd barnanna minna og allra annarra í landinu sem eru ósáttir við ástand mála. Þetta er spurning um aðferðafræði og mér finnst ekki rétt að tefla fram barni á þennan hátt.

Rut Sumarliðadóttir, 4.1.2009 kl. 12:01

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ekki er ég talsmaður þess að þagga niður í börnum. Það á auðvitað að segja þeim hluti og ræða við þau. Miðað við aldur hverju sinni. Hvort þau eiga að koma fram á pólitískum mótmælafundum er bara allt önnur Ella.

Rut Sumarliðadóttir, 4.1.2009 kl. 13:51

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Af löngum kynnum við börn m.a. eigin börn og barnabörn hef ég komist að því að vitsmunaþroski barna ákvarðast ekki af aldri. Frávik í árum geta verið svo ótrúlega mikil að oft hef ég blátt áfram fallið í stafi af undrun þegar rökheldar ályktanir og orðaforði sem minnir á málvísindagrúskara hafa stöðvað umræður fullorðins fólks.

Skyldi W.A. Mozart hafa leyfst að kveðja sér hljóðs í deilum um tónlistarstefnur árið sem hann samdi Töfraflautuna?

Árni Gunnarsson, 4.1.2009 kl. 15:17

6 identicon

Hörður Torfason sem staðið hefur fyrir fundunum lenti í orðaskaki við fundargesti þegar hann bað hóp manna að taka niður lambhúshettur sem huldu andlit þeirra.

Nú er gaman:) pakkið að eyðileggja fyrir hinum alveg eins og ég sagði.

Óskar (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:37

7 Smámynd: Rannveig H

Hann Árni Gunnarson hittir alltaf á naglann. Seigir það sem ég hugsa.

Mér finnst þessi neikvæða umræða um stúlkuna hafa verið til að að gefa mönnum eins og Ástþóri Magnússyni tækifæri til að andskotans og sprikla á sinn ógeðfelda máta.

Rannveig H, 4.1.2009 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband