Hættuleg þjóðinni

Það er svo sem ekkert auðvelt að skilja fólk eða átta sig á því hvað stjórnar hegðun þess. Það eru þó til rannsóknir og kenningar um hegðun manna í félagslegu samhengi. Kenningar sem segja að lærdómur og þekking mótist í félagi manna og sé háð menningu.

Gölluð þekking

Það hefur verið lögmætt frá því að bankarnir hrundu í haust að spyrja hvort lærdómur í samfélaginu hafi farið verulega út af sporinu og draga í efa að sú þekking sem grundvallað var á hafi verið gegnheil. Þekking er góð þekking ef hún felur í sér athafnir sem styðja velferð manna. Þekking sem leiðir af sér hrun er ekki góð þekking. Það má því spyrja hvort reynslan, af óförum sem rekja má til gallaðrar þekkingar, hafi vakið okkur upp og leitt okkur fyrir sjónir að við þurfum að læra, skapa nýja þekkingu, ný almenn viðmið og jafnframt henda einhverri af þeirri gömlu sem reyndist okkur svo illa.

Breytingar eru mönnum erfiðar en þó miserfiðar. Það er af ólíkum ástæðum sem menn taka illa breytingum. Hræðsla við hið óþekkta sem fylgir í kjölfar breytinga er algeng ástæða. Þeir sem telja sig tapa á breytingum setja sig gjarnan á móti þeim jafnvel þótt viðkomandi breytingar þjóni almennri velferð.

Fastir í viðjum gallaðrar þekkingar

Þessar vangaveltur fara af stað þegar ég horfi á ríkisstjórnina halda áfram í sama farinu og markað var í haust í kjölfar bankahrunsins. Það á sér langa sögu í menningu þjóðarinnar að stjórnmálamenn hafa misnotað aðstöðu sína, matað krókinn fyrir sig og sína og tekið ákvarðanir með eigin hag fyrir brjósti fremur en hag þjóðarinnar.

Það þarf ekki djúpvitran einstakling til þess að átta sig á að fjöldi stjórnmálamanna tók beinan þátt með einu eða öðru móti í að kollsteypa þjóðarbúinu. Stjórnmálin og viðskipti stórfyrirtækja er menningarkimi sem einkennst hefur af óheiðarleika og leynimakki. Nú spyr almenningur sig hvers vegna þess sjáist lítil merki að stjórnmálamenn hafi lært af reynslunni eða að þeir ætli að temja sér nýja hætti.

Ég held að svarið við þeirri spurningu sé nokkuð margþætt. Sjálfsagt má finna skýringar á illskiljanlegri hegðun tiltekinna atvinnustjórnmálamanna í athöfunum þeirra og þeim kostum sem þeir völdu með því að taka þátt í dansi víkinganna. Þeir eru ekki tilbúnir til þess að horfast í augu við að sú siðferðilega mælistika sem þeir hafa metið gjörðir sínar við hefur sett þá á svo lágt plan að þeir sitja sumir hverjir á bekk með glæpamönnum sem þeir nú leggja sig fram um að vernda.

Hættulegir þjóðinni

Flækja hagsmuna, bræðralaga og vitneskju um misgjörðir gerir það að verkum að stjórnmálamenn, með fortíð, geta ekki tekið ákvarðanir sem vinna gegn hagsmunum þeirra sem rændu þjóðina. Þeir sem ekki hafa hreinan skjöld þurfa að standa vörð um leyndardóma fortíðarinnar og geta því ekki unnið af heilindum að velferð þjóðarinnar. Leyndardómar fortíðarinnar hindra lærdómsgetu þeirra og menga menningarkima stjórnmálanna með athöfnum sem einkennast af dómgreindarleysi.

Stjórnmálamenn sem runnu niður í hyldýpi græðgi, siðlausrar hegðunar og virðingarleysis við meðbræður sína trúa enn á léttvægar lausnir og fix. Þeir átta sig ekki á að þeir eru nú í sporum alkahólistans sem er að fá sér afréttara að morgni.

Lærdómur er stjórnmálamönnum sem tamið hafa sér vonda siði ekki megnugur svo lengi sem þeir horfast ekki í augu við fortíðina. Í stað iðrunar hafa þeir gripið til þess ráðs að reyna móta skilning almennings á gjörðum þeirra sér í hag. Þeir forðast að kalla hlutina réttum nöfnum en kalla hlutina í stað þess eitthvað annað í þeirri von að almenningur skilji ekki umfang svika þeirra. Þessi hegðun hefur kostað þá hæfileikann til þess að finna til samkenndar með almenningi. Þegar slík hegðun verður viðtekin og tekin gild í félagslegu samhengi er hún orðin hluti af menningu þess kima sem hún á sér upptök í. Rangfærslur, rangtúlkanir og yfirhylmingar setja sinn blæ á hegðun þessa fólks. Fyrir þjóðina er þetta vandamál af hrikalegri stærðargráðu en fyrir stjórnmálamenn er þetta skömm.

Skömm þeirra og lærdómstregða er hættuleg þjóðinni. Þeir yfirfæra vantrú sína á sjálfum sér yfir á þjóðina og bregðast henni sem sameiningarafl á erfiðum tímum. Í stað þess að rísa upp og virkja samtakamáttin til þess að ráðast gegn vandanum kjósa þeir að lúta valdi alþjóðaafla sem eiga sér sögu tortímingar á almennri velferð þar sem þau hafa farið um.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög vel að orði komist; en þetta er einmitt kjarni vandamálsins í dag:

"Flækja hagsmuna, bræðralaga og vitneskju um misgjörðir gerir það að verkum að stjórnmálamenn, með fortíð, geta ekki tekið ákvarðanir sem vinna gegn hagsmunum þeirra sem rændu þjóðina".

Það er með ólíkindum að hlusta á síbyljuna um vandamálin í dag sem tengjast efnahag þjóðarinnar. Persónulega er ég að mestu hættur að nenna að hlusta eftir þessu - þetta er orðið að stagli.

Ástæða þess að ég segi þetta:  Hún er einfaldlega sú að það hefur ekki fram á þennan dag verið ráðist raunverulega að rótum þess að þjóðarbúið skuldar svo mikið sem raun ber vitni. Ef að alvarleg "gæðavandamál" koma upp verður þau eingöngu upprætt sé tekið á grunnorsökum.

Umrætt "fix" sem er krafs í bakkann - var að senda skuldaklafa óreiðumannanna yfir á almenning.  Það var gert í stað þess að ná í þá fjármuni sem var komið undan erlendis (á einn eða annan hátt) og greiða skuldirnar með þeim.  Vissulega er þessi staðhæfing mín nokkur einföldun - eitthvað hefir verið krafsað í bakkann, "peðum" verið fórnað - en ég tel þó að hún eigi fullan rétta á sér.

Gamla ríkisstjórnin hafði ekki dug í það og sú nýja virðist ætla að falla í sömu gryfju. Þó vil ég gefa þeim örlítið lengri tíma - en er vonlítill í ljósi innihalds áðurnefndrar "síbylju". 

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 13:26

2 identicon

Sæl Jakobína


Ég setti inn smá innlegg við þessa grein á smugunni og set það inn hér líka

----------------------------------------------------------------------------------------

Fín grein og ég held að þetta eigi við um marga stjórnmálamenn.

Mig langar að setja fram smá viðbót sem ég held að skipi miklu máli í þessu samhengi.

Ég er ekki viss um að þessi þekking sé byggð á neinum gölluðum forsendum. Það á sjálfsagt við um stjórnmálamenn sem hafa talið sér trú um að þeir séu að vinna að hagsmunum samfélagsins á sama tíma og þeir hafa "styrki" frá útrásarvíkingum í vasanum.

Ef menn eru, samkvæmt skilgreiningu, að vinna að hagsmunum samfélagsins í heild, þá er sú þekking sem menn hafa tileinkað sér gölluð. Það er alveg hárrétt og ég held að mjög margir vinni út frá þeirri forsendu. Einnig er okkur skrílnum talið trú um þannig sé þetta.

En ef við reynum að losa okkur út úr PR. orðræðunni og skoðum einfaldlega afleiðingarnar af stefnunni sem olli hruninu þá er hægt að draga álykktanir út frá þeim afleiðingum.

Álykktanir um hvert var raunverulegt markmið stefnunnar sem keyrði allt í þrott.
Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að sú stefna hafi verið keyrð með því markmiði að tryggja hagsmuni heildarinnar. Þvert á móti hlýtur maður að draga þá álykktun að markmiðið hafi verið að tryggja hagsmuni fárra á kostnað almennings. Það var að minnsta kosti niðurstaðan. Þá hlýtur maður að draga þá álykktun að þessi þekking sé alls ekki gölluð því hún virkar mjög vel til að ná fram markiðum sem tryggja sérhagsmuni fárra útvaldra. Það er ekki eins og afleyðingar nýfrjálshyggju hafi verið óþekktar áður en íslensk stjórnvöld tóku hana upp. Þessi stefna hefur skilið eftir sviðna jörð um allan heim þar sem örfáir maka krókinn á kostnað almennings.

Hvers vegna er þessi sama stefna viðhöfð áfram eftir hrun?
1. Eru menn svona vitlausir?
2. Eru menn svo flæktir í hagsmunatengsl að þeir geta ekki breitt rétt (þessi grein lýsir þeim þætti vel held ég undir "Hættulegir Þjóðinni")?
3. Vita alþingismenn almennt ekki hvað þeir eru að samþykkja?
4. Eða er verið að tryggja að þróunn undanfarinna tveggja áratuga, í átt að auknum ójöfnuði verði ekki snúið við?


Líklega eiga fyrstu þrjú atriðin við um marga þingmenn. Fjórða atriðið um fáa þeirra vona ég.
Eitt lítið dæmi um vinnubrögðin á þingi, er mál sem kom upp í tengslum við skattahækkanirnar á olíu, tóbaki og áfengi um daginn.
Lilja Mósesdóttir krafðist þess að fá upplýsingar um óbein áhrif af þessum aðgerðum. Það þurfti að ræsa út lið til að reikna þau út. það var m.ö.o. ekki kannað hvaða óbeinu áhrif aðgerðirnar hefðu og einungis einn þingmaður gerði athugasemd við það. þetta lýsir alveg skelfilegum vinnubrögðum þar sem menn samþykkja það sem þeim er uppálagt án þess að spá frekar í það.
Þetta skýrir fullkomlega hvernig menn koma í gegn vafasömum málum án mikillar umræðu eða gagnrýni. Ef þessi vinnubröð eru reglan þá virðast alþingismenn taka almennt gilt það sem sagt er við þá af hagsmunaaðilum án nánari skoðunnar!!
Þetta á þó alls ekki við um alla þingmenn en einmanna raddir í eyðimörkinni vekja sjaldnast mikla athygli.

Það er reyndar vel þekkt að viðskiptaráð hefur haft gríðarleg áhrif á lögjöf í landinu. Um þá og aðra svipaða hagsmunahópa gildir líklega fjórða atriðið. Þeir vita aftur á móti nákvæmlega hver bein og óbein áhrif af þeirra tillögum eru og nota vikt sína til að koma þeim í gegn.
Þessir aðilar eru enn að móta stefnuna og þorri þingmanna hlýðir.

-------------------------------------------------

 Innskot: Hákon, það er alveg rétt að ekki sé leitað grunnorsök. Einnig að eðlilegt hefði verið reyna að sækja peninga til baka. Ekki nóg með að ekkert fé hafi verið endurheimt, heldur var peningum dælt í hýtina. Þegar fyrir lá að bankarnir væru að hrynja, fékk KB-banki 500 miljarða, frá Seðlabankanum , sem að sjálfsögðu gufuðu upp.  þessi gjörningur var gerður með fullri meðvitund. Var þetta gert með almannahag fyrir brjósti eða var féð ætlað sem ferðafé fyrir útlæga útrásarvíkinga?

Benedikt G. Ófeigsson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 15:10

3 identicon

Þessi frétt um umrædda 500 milljarða sem greiddir voru til "fjárhirðanna" í KB banka er að sjálfsögðu ótrúleg. Fimm hundruð þúsund milljónir inn í einn viðskiptabanka.

Gert með fullri meðvitund - ó nei. Veruleikafirring vanhæfra stjórnenda. Athugið ekki einn maður - heldur margir -  á báðum endum.

Það er stundum talað um s.k. 80-20 reglu, en hún segir á mannamáli að fáir og veigamiklir þættir vega oft þyngst.  T.d. 80% tekna koma frá 20% viðskiptavina.  Þessi regla á mjög oft við.

Þannig mætti t.d. telja upp 100 mismunandi orsakir fyrir skuldum þjóðarbúsins - en álykta að það séu  í raun 20 afgerandi þættir sem vega mun þyngra en aðrir - og eru því megin orsök vandamálsins.

Þessi 500 miljarða greiðsla er mjög líklega ein af megin orsökunum; fjármunir sem gufuð upp og urðu að skuldum almennings. Eða er það ekki rétt ályktun ?

Og hvert fóru þessir fjármunir svo ? Það er lykilspurning sem verður að svara fyrr eða síðar.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 21:45

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka innlitið Benedikt og Hákon. Það er grundvallaratriði í því sem framundan er að spyrja áleitinna spurninga á borð við þær sem þið leggið fram hér.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.6.2009 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband