Áskorun til þingmanna

Opið bréf til þingmanna

Ég hef oftar en einu sinni velt því fyrir mér í vetur hvort stjórnvöld geri sér grein fyrir ábyrgð þeirra á framtíð þjóðarinnar. Hversu langt mega valdhafar ganga þar til þeir eru komnir út fyrir það umboð sem þeir geta talist hafa þegar þeir eru kosnir til fjögurra ára? Stjórnvöldum ber að standa með almenningi á hverju sem gengur en atburðarrás liðinna mánaða bendir til þess að stjórnmálamönnum yfirsjáist hagsmunir þjóðarinnar.

Erindi mitt er að hvetja þig til þess að setja hagsmuni þjóðarinnar í fyrsta sæti þegar þú tekur afstöðu til Icesave-samningsins.

Mikill ágreiningur er um réttmæti kröfu erlendra aðila vegna innistæðna í Icesave. Þegar slíkur ágreiningur rís upp er eðlilegt að stjórnvöld taki stöðu með þjóðinni en ekki erlendum kröfuhöfum. Þar sem að kröfurnar fela í sér áhættu sem gæti hæglega komið íslenskum almenningi á vonarvöl ættu stjórnmálamenn að hugsa sig vel um áður en þeir gangast við þessum kröfum.231232_63_preview

Eðlilegur farvegur fyrir þetta mál er Alþjóðadómstóllinn í Haag. Tilgangur með stofnun hans er að dæma í málum eins og Icesave. Að gera kröfu um að málið fari fyrir dómsstóla varpar ekki nokkurn hátt rýrð á íslenska ríkið. Þvert á móti ber það vott um ábyrgðarleysi stjórnvalda ef þeir skrifa undir samning á borð við Icesave.

Framgangur Icesave-málsins er í hrópandi andstöðu við skipulag og sáttmála lýðræðissamfélagsins sem byggir á löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Ágreiningur á heima hjá dómsvaldinu í lýðræðissamfélagi.

Ef íslensk stjórnvöld svíkja þjóð sína og skrifa undir afarkosti Icesave-samningsins vegna smæðar sinnar gagnvart stærri ríkjum eru þau að lúta lögmálum frumskógarins en ekki að haga sér í samræmi við lögmál siðmenntaðs lýðræðissamfélags.

Ég minni á það að ekki er stoð fyrir því í lögum, hvorki tilskipunum ESB, né heldur íslenskum lögum að ríkinu sé skylt að ganga í ábyrgð fyrir tryggingarsjóð innlána. Regluverk ESB er ófullkomið hvað þetta varðar og það er fráleitt að íslenskir skattborgarar geti orðið ábyrgir fyrir viðskiptum einkafyrirtækja út um allan heim hvort sem kveðið er á um það í regluverki eða ekki. Ef einhver er ábyrgur í þessu máli, aðrir en þeir sem áttu beina aðild að viðskiptunum, eru það þeir sem voru ábyrgir fyrir því að regluverk ESB gengi upp, þ.e.a.s. valdhafar Evrópusambandsins sem sjá um að móta viðskiptaumhverfi milli ríkja innan þess. 6a00d83451bf6769e201053662f4a7970c-800wi

Ég árétta því við þig ágæti þingmaður að það er þín ábyrgð að taka stöðu með þjóð þinni.

Ég óska eftir svari þar sem þú gerir grein fyrir afstöðu þinni og rökstuðningi fyrir henni.

Ég vil geta upplýst börnin mín og börn annarra um það hverjir kölluðu þessa óhæfu yfir okkur ef hún nær fram að ganga.

Bestu kveðjur

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Svör hefur borist frá tíu þingmönnum nú:

Margrét Tryggvadóttir segir:

Sæl Jakobína og takk fyrir bréfið,

Ég er þér hjartanlega sammála og við í Borgarahreyfingunni munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að samningurinn nái fram að ganga. Baráttan gegn Icesave samningnum er eitt af helstu stefnumálum Borgarahreyfingarinnar og ein af ástæðunum fyrir því að ég gekk til liðs við hreyfinguna.

Baráttukveðjur,

Margrét

Ólína Þorvarðar segir:

Sæl Jakobína.

Ég geri mér fulla grein fyrir ábyrgð minni gagnvart þjóðinni. Þá ábyrgð tek ég alvarlega, og þess vegna mun ég í þessu Icesave máli taka yfirvegaða afstöðu en ekki hlaupa til í takt við háværustu hrópin.

Ég lít svo á að íslensk stjórnvöld séu nú að róa lífróður fyrir íslenska þjóð, og ég er tilbúin að aðstoða þau við þann róður af öllum mínum kröftum.

Eftirköstin af efnahagshruninu verða ekki auðveld - það vissum við. Nú er komið að skuldadögunum. Við eigum enga leið út úr hruninu aðra en að moka, og það verða allir að hjálpast að við þann mokstur, hvort sem þeir bera ábyrgð á hruninu eða ekki.

Ég er ekki sátt við það að þurfa að taka á mig lífskjaraskerðingu og hækkun lána í framtíðinni vegna þessa ástands, enda ber ég enga ábyrgð á því frekar en þú. En við erum ein þjóð, og við verðum að takst á við þetta sem þjóð. Ekki bara okkar sjálfra vegna heldur barnanna okkar vegna og barnanna þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.

Ég trúi því að þær aðgerðir sem nú eru í gangi, miði einmitt að því að bjarga. Þess vegna styð ég þær heilshugar og mun greiða atkvæði með þeim. Ég gæti ekki samvisku minnar vegna setið hjá, og þaðan af síður greitt atkvæði gegn, því ég trúi því að með Ice-save samningnum hafi verið kastað til okkar líflínu sem muni ráða úrslitum um það hvort við eigum okkur viðreisnar von sem þjóð.
 
Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Í því ljósi, sé ég enga aðra leið en þá sem  nú er verið að fara. Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir  og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í skuldir. Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%.
Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra - þá mun ég í þessu máli hlýða mínni eigin samvisku eins og Þingmannseiðurinn kveður á um að mér beri að gera. Ég mun ekki láta undan þrýstingi frá hvorki stjórn né stjórnarandstöðu, og mun ekki láta æsingslega og óábyrga umræðu villa mér sýn í þessu máli.  Hér er of mikið í húfi.

Með velfarnaðaróskum,

Ólína Þorvarðardóttir
Alþingismaður

Ég vil setja hér með svar til Ólínu sem er eftirfarandi:

Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Jafnvel þótt við töpum málinu mun það aldrei fela í sér áhættu eða afarkosti á borð við þá sem felast í Icesave-samningnum. Alþjóðalög mun verja okkur fyrir slíku.

Í Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir  og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í skuldir. Lánið er MJÖG óhagstætt. 5,5% vextir í þessu samhengi eru okurvextir (hærri en vextir á húsnæðislánum og auk þess gengistryggt). Það að fresta vandanum út fyrir kjörtímabilið er lítilmannlegt. Stjórnvöld hafa valið leið í Icesave málinu sem gera það að vanda annarra í stað þess að sýna ábyrgð og takast á við það núna.

Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%. Þessi setning speglar vel það sem ég segi um áhættuna sem er innbyggð í þennan samning. Það er ekki að ástæðulausu sem Bretar og Hollendingar heimta að þess áhætta lendi öll á okkur. Það er vítavert ábyrgðarleysi sem jaðrar við spilafíkn að láta sér detta í hug að hætta framtíð barna okkar á grundvelli þess sem kallað er "bjartsýnis/svartsýnisspár".

Þór Saari segir:

Sæl Jakobína.
Víð í Borgarahreyfingunni erum alfarið á móti þessum ICESAVE samningi og
höfum hingað til talað gegn honum og munum halda því áfram þegar hann kemur
til afgreiðslu í þinginu. Þú getur séð framlag okkar og hluta umræðunnar á blogginu
mínu frá 6. júní.  Við höfum verið að reyna að dafna liði gegn samningunum og er
líklegt að öll Framsókn greiði atkvæði gegn, nokkur úr VG en ekki er víst að allir
Sjálfstæðismennirnir geri það.  Þanig að þú og fleiri megið hringja í þá.

http://thorsaari.blog.is/blog/thorsaari/entry/891687/

Í guðs bænum haltu svo áfram að láta í þér heyra.

Með bestu kveðju.
Þór

Siv Friðleifsdóttir segir:

Sæl Jakobína.

Bendi þér á ályktun miðstjórnar framsóknarmanna frá því um helgina:

http://www.framsokn.is/Flokkurinn/Fyrir_fjolmidla/Frettir/?b=1,4643,news_view.html

Kv.

Siv

Gunnar Bragi segir:

Sæl Jakobina.
Ég tekið undir flest það sem fram kemur í þínu skeyti.
M.v. þá litlu kynningu sem þingmenn hafa fengið þá get ég ekki með nokkru móti samþykkt samninginn.
kv.
Gunnar Bragi Sveinsson.

Birgitta segir:

þú veist afstöðu okkar
hefði ég haldið miðað við það sem við höfum látið frá okkur fara varðandi ICESAVE
með björtum kveðjum
Birgitta Jónsdóttir

Sigmundur Ernir Segir:

Bestu þakkir fyrir bréfið.

Sjónarmið þín eru málefnaleg og sterk.

Guðmundir Steingrímsson segir:

Komdu sæl,
Takk fyrir bréfið. Ég get ekki, og sérstaklega ekki á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga -- sem eru litlar --, samþykkt þessa ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna.
Bestu kveðjur,
Guðmundur.

Vigdís Hauksdóttir segir:

Sæl og blessuð Jakobína
Ég tek undir hvert orð hjá þér og er þér algjörlega sammála. Ég sagði á fundi sem Heimsýn stóð fyrir á Bifröst í gær að upp væri runnið örlagasta ár okkar íslendinga.
Ég kem til með að greiða atkvæði á móti þessum samningi - enda deili ég skoðun með Stefáni Már og Lárusi Blöndal að okkur beri ekki að ábyrgast þessar greiðslur.
Með kveðju og góðum óskum um bjarta framtíð fyrir íslenska þjóð.
Vigdís Hauksdóttir

Sæl Jakobína,
mín afstaða er skýr. Ég er alfarið á móti því að við borgum Icesave skuldbindingarnar.

Gangi þér vel í þínum störfum.

Bkv. Höskuldur Þórhallsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir hvert einasta orð! Takk fyrir þetta.

Björg F (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 03:27

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Aðildarviðræður að ES: sem hentar ekki hagsmunum eyja sem byggja á einhæfum hráefnisútflutningi [ Sjá ákvæði um slíkar eyjur í Lissabonn samningi]  og kosta um 1000.000.000 réttlæta ekki slíkt þjóðarmorð.

Júlíus Björnsson, 14.6.2009 kl. 03:37

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott framtak hjá þér Jakobína! Þú átt heiður skilinn fyrir þína ötulu hagsmunagæslu fyrir hönd almennings í þessu landi

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.6.2009 kl. 03:51

4 identicon

Stjórnvöld geta sett lög til verndar landsmönnum íslands, gegn ICESAVE samningnum ef pólitískur vilji er fyrir hendi, gegn ESB og alþjóðasamfélaginu ef alþjóðasamfélagið og ESB vinnur gegn hagsmunum íslands, það þarf engan eldflauga vísindamann til að sjá það, íslendingar verða að hafa það hugfast að það er svolítið til sem heitir þjóðaréttur og með ICESAVE kúguninni er verið að taka þann rétt af íslendingum, vegna þess að almenningur getur aldrei borgað þessar skuldir fjárglæframanna það er hlutverk alþjóðasamfélagsins að handtaka þessa glæpamenn.

Lárus Baldursson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 03:53

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég er einhverra hluta vegna komin með ógeð á icesave bullinu og öllu þessu helv... kjaftæði á íslandi. Nenni þessu varla lengur.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.6.2009 kl. 10:05

6 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Mjög flott bréf. Ekkert við það að bæta.

Tek undir með Rakel, þú átt heiður skilið fyrir þína ötulu baráttu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 14.6.2009 kl. 10:48

7 identicon

Við þjóðin verðum að sameinast um það við fyrsta hentuleika að koma  henni Jakobínu á þing þá með svo afgerandi hætti að hún fengi ráðherradóm í beinu framhaldi. Það er svona fólk sem þjóðin þarf að tryggja að það komist á þing við verðum að finna a.m.k. 32 svona einstaklinga eins og Jakobínu því það er hrein meirihluti á Alþingi íslendinga. Þá fyrst er hægt að sjá breytingar í þessu landi það verður ekki fyrr það er bara óskhyggja.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 10:59

8 Smámynd: Vilhjálmur Sveinn Björnsson

Tek undir þetta af fullum hug. Ég hef sagt það áður og ítreka það við eigum ekki að borga þetta. Ég er algjörlega sammála þér að við eigum að kanna okkar réttarstöð okkar.

Vilhjálmur Sveinn Björnsson, 14.6.2009 kl. 11:03

9 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Svo hjartanlega sammála og tek líka undir að þetta er flott framtak.

Rut Sumarliðadóttir, 14.6.2009 kl. 12:16

10 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Þakka fyrir þetta. Flott bréf. Ég er svo hjartanlega sammála þér.

Guðni Karl Harðarson, 14.6.2009 kl. 13:52

11 identicon

Líst vel á Þór Saari  og Rakel Sigurgeirsdóttir þá eru komnir 3 einstaklingar með Jakobínu bara í dag sem við þjóðin að mínu mati þurfum á að halda til að mynda starfshæfan meirihluta á Alþingi Íslendinga sem fyrst er verða má sem eru tilbúnir að vinna að heilindum fyrir þjóðina.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 15:06

12 Smámynd: Júlíus Björnsson

Bretar settu á okkur hryðjuverkalög sem byggja á  mati þeirra að tryggingar séu óverulegar. Náist 95% upp í skuldir nú eða síðar. Þá er mál gegn Bretum auð unnið. Hagsmunir Breta að tryggja að lítið fáist fyrir eignir eru algerir til að vernda sinn sögulega málstað. 

Sameiginlegir hagmunir þjóðarinnar eru að losa okkur við siðspillingar orðsporið ná inn þeim fjármunum sem hinir siðspilltu glæpamenn stálu. Byggja hér upp þjóðfélag þar sem allir eru jafnir fyrir lögum.

ÓÞ ætti að taka fram að ég til heyri ekki t.d. þeirri sömu þjóð og  hún.  Landráðsmenn eru þeir sem eiga ekki tilkall til þess að kallast hluti sömu þjóðar. Skóggangssök. 

 En við erum ein þjóð, og við verðum að takast á við þetta sem þjóð.

Við erum ein þjóð sem borgum ekki skaða sem við berum ekki ábyrgð á.

Það eru greinlega tvær þjóðir í Landinu. Siðferðilegur munur er þvílíkur.

Hvað kom mikið úr Hafskip. Hvað kemur mikið úr svona hruni sögulega séð?

5% ,10% , 15% .

Halda sumir að aðrir séu fífl? Fyrst er almenningur stunginn síðan er snúið í sárinu.

Ég borga 4,5% vexti að mínu neyslu/gengis láni. Hollendingar borga 2% mest ofan á gengistryggingu. 5,5/2 þetta er 275% hærri vextir eða lánsálagning.

23% hærri vextir en ég greiði. Fólk sem er svona illa að sér í fjármálum ætti að fá sér annan starfa.

Júlíus Björnsson, 14.6.2009 kl. 15:48

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott svarið þitt Jakobína, sem þú gefur Ólínu Þorvarðardóttur! Baldvin Nielsen: Takk fyrir traustið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.6.2009 kl. 16:15

14 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Veistu það Júlíus þetta er akkúrat eins og frá mínum eigin munni sagt!

>Sameiginlegir hagmunir þjóðarinnar eru að losa okkur við siðspillingar orðsporið ná inn þeim fjármunum sem hinir siðspilltu glæpamenn stálu. Byggja hér upp þjóðfélag þar sem allir eru jafnir fyrir lögum.

> En við erum ein þjóð, og við verðum að takast á við þetta sem þjóð.

 Svo 100% sammála þér!

Guðni Karl Harðarson, 14.6.2009 kl. 17:19

15 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þeir sem eru á launskrá ES eru örugglega ekki sammála mér. Hollusta er meginlands Evrópubúum flestum í blóð borin.  Evrópu Sameiningin gengur út á að tryggja hag stofnenda: Frakka og Þjóðverja fram í tímann. Brussel á það erfiða verkefni fyrir höndum að tryggja að fátæku meðlimaríkin geti greitt til baka hagræðingarkostnaðinn sem þau tóku á sig við innlimun.  Íslendingar eru sein heppnir ef þeir veðja á gelda ES.

Guð hjálpar þeim sem hjápar sér sjálfur. Sögðu Þjóðverjar.

Júlíus Björnsson, 14.6.2009 kl. 18:52

16 Smámynd: Heidi Strand

Þakka þér fyrir Jakobina.Bara vextirnir á ári er miklu hærra en andvirði af þorski sem má veiða.

Heidi Strand, 15.6.2009 kl. 08:29

17 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Það mun ennn betur koma í ljós fljótlega, vangeta ríkisstjórnar til að sjá um þessi mál öll.

Málið er að þessi mál öll eru svo samtvinnuð fyrir þjóðina. Icesave, ESB og geta stjórnar til að takast á við fjármálavandann. 

Auðvitað á þjóðin að vinna saman sem "fólk" að bjarga landinu út úr þessum efnahagsvanda. Taka þátt í að byggja hana upp aftur. Sama hver svo sagði eða segir.

Það er hinsvegar alveg á hreinu að fólk sem setti ekki þjóðina í þennan fjármálavanda á ekki að líða fyrir það með fjárhagstapi.

Það þyrftiað setja tappa á efnahagslífið, verja algjörlega kjör lægstlaunuðu og að það fólk þurfi að líða fyrir aðgerðir annara og halda síðan áfram frá því.

Vörn aðgerða þarf að miðast við þetta! En ekki það að við eigum öll þjóðin að taka þátt í aðgerðum sem felast í þátttöku okkar í fjármálaórðeiðu annara og líða fyrir það með sem öllu því fylgir. Hér er regin munur á! Við tökum ekki á okkur það sem aðrir hafa sett okkur í!

En við tökum þátt í uppbyggingu án taps!

Besta leiðin yrði að þjóðin sjálf takist á við vanda sinn án þess að þurfa að leita eftir leyfum við hinu og þessu hjá stór-sambandi sem við höfum ekkert að gera inn í, því það mundi gera okkur ekkert annað en erfiðara fyrir.

Þetta Icesave mál gerði okkur alveg rosalega erfitt fyrir og við þurfum að finna aðra eið að bjarga þessu máli í höfn ef við eigum fyrir alvöru að geta tekist á við vandann.

Guðni Karl Harðarson, 15.6.2009 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband