2010-09-12
Hótar löggjafarvaldinu
Viðbrögð Geir Haarde koma varla á óvart. Hann hótar þinginu með því að segja:
Ábyrgð þingmanna er mikil þegar kemur að því að beita ákæruvaldi í fyrsta sinn í sögunni, eins og nú hefur verið lagt til. Verði sakborningar sýknaðir mun það verða mikill áfellisdómur yfir störfum þingmannanefndarinnar og þingsins. Þeir þingmenn sem samþykkja ákæruna verða að vera reiðubúnir að horfast í augu við sína ábyrgð á því þegar öll kurl koma til grafar.
Málflutningurinn er ekki einungis speglun á hinu viðtekna ofbeldi forystu Sjálfstæðisflokksins sem felst í hótunum heldur endurspeglar hann einnig rökleysu sem er algeng í herbúðum Sjálfstæðismanna. Geir Haarde heldur því fram að þing og þingnefnd eigi að hafa niðurstöðu dómsins fyrir fram tryggða. Hvað segir það okkur um viðhorf Geirs til réttarfars almennt? Það fer um mig velgja þegar ég hugsa til þess að rökhugsun á þessu plani hafi ráðið mikilvægum ákvörðum um efnahagsmál þjóðarinnar um langa hríð.
þá segir Geir einnig:
Ella hefðu þeir alþingismenn sem skipa meirihlutann ekki haft leyfi til að leggja til við Alþingi að það samþykki ákæru því slíkt væri ekki í samræmi við íslenskar og alþjóðlegar réttarfars- og mannréttindareglur.
... en þetta er markverð yfirlýsing frá sjálfstæðismanni en flokkur hans hefur fram að þessu hunsað alþjóðlegar réttarfars- og mannréttindareglur þegar þær varða almenning. Það er margoft búið að dæma íslenska ríkið fyrir mannréttindabrot gegn almenningi fyrir erlendum dómstólum en Sjálfstæðismenn ypptu bara öxlum og héldu uppteknum hætti.
Yfirlýsing Geirs um að þingmenn sem samþykkja ákæruna verði að vera reiðubúnir að horfast í augu við sína ábyrgð er hjákátleg í ljósi þess að hann telur sjálfan sig hafa fullt leyfi til þess að gera mistök sem stjórnmálamaður og telur það fjarri lagi að hann þurfi að sitja undir ábyrgð.
Hrokinn virðist vera af stærðargráðu sem er nánast hafinn yfir mannlegan skilning.
Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að nafn mitt yrði nokkurn tíma nefnt í sömu andrá og landsdómur eða að ég kynni að verða sakaður um að vanrækja störf mín þannig að varðaði við lög um ráðherraábyrgð...segir hinn fyrrverandi forsætisráðherra.
Þarna fer hinn fyrrverandi forsætisráðherra sem nánast þurfi að bera út úr stjórnarráðinu eftir afglöp hans og kostaði allan almenning stóran hluta af búáhöldum sínum og tólum, með rétt mál. Það hefur örugglega ekki hvarflað að manninum í hrokafullri trú á eigin rétt til vegsemda að hann þyrfti að standa skil á vanrækslu sinni.
En það er einmitt þessi blinda og ofstækisfulla trú stjórnmálamanna og þá sérstaklega þeirra sem hafa farið með völd í sjálfstæðisflokknum á eigin óskeikulleika sem hefur reynst þjóðinni hættuleg. Landsdómur er því mjög mikilvæg lexía fyrir þennan menningarkima íslensks samfélags en þessi stétt manna telur sig nánast ósnertanlega og hafna yfir ábyrgð á eigin gjörðum, athafnaleysi og vangetu.
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru viðbrögð fullkomlega siðblinds manns!
Rannsóknarskýrslan, 12.9.2010 kl. 14:37
Afbragðs pistill um þetta mál. Hafðu þökk fyrir að segja það sem margir eru að hugsa.
Ybbar gogg (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 15:16
Hverju er Geir að hóta? Að rasskella þingið? Sletta skyri á þingið? Brjóta rúður í þinghúsinu?
Benedikt Halldórsson, 12.9.2010 kl. 15:31
Mér finnst ótrúlegt, þar sem þú þykist eiga einkarétt á mannréttindum, að þú styðjir það að pólitísk þenkjandi þingmenn ákveði hverjir verði ákærðir og hverjir ekki. Ákæruvaldið er skyndilega komið til Atla Gíslasonar og félaga sem augljóslega vilja pólitíska andsætðinga sína niður í svaðið. En það er greinilega í lagi því það á að ákæra Geir og Árna (helvítis Sjálfstæðismennina).
Eitthvað myndi heyrast í þér ef þessu væri öfugt farið.
Þessi pistill (eins og flestir) er stútfullur af alhæfingum og órökstuddum sálgreinigum þínum á manni sem þú virðist hata útaf lífinu. Þessi heift þín og hatur gerir engum gott.
Og hvað gerist svo ef óvilhallur og sanngjarn dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að engin vanræksla ætti sér stað?
Það hlýtur að vera rík áhersla í réttarríki að ekki verði gripið til ákæru af hentisemi og pólitík. (Viljum við dómstólakerfi eins og í Bandaríkjunum?) Auk þess ætti ekki að vera ákært nema yfirgnæfandi líkur séu á því að sakfelling eigi sér stað. Það þýðir ekki að ákæra alla í von og óvon um að þeir verði sakfelldir. Þar sem þú þykist styðja almennar réttarfars og mannréttindareglur hlýturðu að vera sammála því.
Þór (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 15:49
Mér sýnist á málflutningi Geirs að hann sé að ota því að þingmönnum að með því að senda hann fyrir landsdóm að þá séu þeir að kalla yfir sig ábyrgð á niðurstöðum landsdóms.
Ég sé ekki vel hvert hann er að fara með þessari fullyrðingu nema þá að hann sé að reyna að hræða þá frá því að gera það sem þeim bera að gera og það er að fela landsdómi að meta framgöngu Geirs.
það eru svo sannarlega nægilegar staðreyndir í málinu sem styðja það.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.9.2010 kl. 15:50
Ef þetta fyrirkomulag með landsdóm er svona ósanngjarnt í augum Sjálfstæðismanna hvers vegna í ósköpunum hafa þeir þá valið að viðhalda því í tuttugu ára valdatíð sinni? Samkvæmt þessu fyrirkomulagi er ákæruvaldið ekki Atli Gíslason heldur Alþingi. Þetta er fyrirkomulag sem sjálfstæðismenn höfðu ekkert við að athuga meðan þeir höfðu meirihluta á þingi. Pólitískir andstæðingar Vinstri Grænna hafa verið í svaðinu um langa hríð og komu sér þangar sjálfir.
Ef þessu væri öfugt farið, þ.e. af að þingmenn annarra flokka hefður sýnt vanrækslu þá tel ég að þeir eigi að sæta ábyrgð.
Þór ég sé í þér býr heittrúaður íhaldsmaður. Það er auðvelt að lesa það út úr rökhæfni þinni. Persóna Geirs er mér gjörsamlega óviðkomandi og ég ber engar tilfinningar til hans.
Hins vegar vil ég búa í samfélagi sem tryggir það að vanræksla á borð við þá sem Geir sýndi kalli á viðbrögð. Þetta gildir hvort sem um sjálfstæðismann er að ræða eða ráðherra úr öðrum flokki.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.9.2010 kl. 16:06
Geir eru engu að hóta, það er röng ályktun hjá þér. Geir er aðeins að verja sig. Það er vonandi leyfilegt. Hann er ekki í nokkurri aðstöðu til að hóta þinginu einu né neinu. Þú hefur því dregið ranga ályktun.
Benedikt Halldórsson, 12.9.2010 kl. 16:20
"Þetta eru viðbrögð fullkomlega siðblinds manns! Rannsóknarskýrslan, 12.9.2010 kl. 14:37"
Gaman væri að vita hvort þú sért samála um að Geir sé siðblindur. Reyndar er það ekki á færi leikmanna að greina siðblindu frekar en geðsjúkdóma eða nýrnasteina. En margir stunda óhefðbundnar geðgreiningar á pólitískum andstæðingum. Lísa Björk Ingólfsdóttir fer fyrir leshópnum.
Benedikt Halldórsson, 12.9.2010 kl. 17:03
Sæl.
Að ákæra þessa ráðherra er ekkert annað en lýðskrum. Ráðherrar bera ekki ábyrgð á gjörðum stjórnenda í einkafyrirtækjum. Þessi niðurstaða hluta þingmannanefndarinnar sýnir að þeir nefndarmeðlimir skilja ekki orsakir hrunsins og þ.á.m. þú.
Vilja menn t.d. meina að dýralæknirinn eða Björgvin hefðu átt að koma í veg fyrir Icesave ævintýri Landsbankans? Þeir gátu það ekki vegna reglna EES jafnvel þó þeir hefðu séð fyrir hvað seinna gerðist.
Rannsóknarnefnd alþingis segir í skýrslu sinni að bankarnir hafi verið dauðadæmdir frá 2006. Hvers vegna á þá að hegna ráðherrum fyrir eitthvað sem þeir gerðu eða gerðu ekki 2008?
Væri ekki við hæfi að rannsaka núna hvað frammistaða og Vg og Sf hefur kostað þjóðina? Er í lagi að ráðherrar segi ósatt um Icesave og um hagtölur á Íslandi? Eigum við að stinga núverandi ráðherrum inn fyrir það? Fyrri ráðherrar gerðust kannski sekir um vanhæfi en lugu þeir að þjóðinni?
Svo eitt í lokin: Veistu hver er raunveruleg rót kreppunnar? Eru ófarir heimsbyggðarinnar Geir, Árna, Ingibjörgu og Björgvini að kenna?
Helgi (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 17:29
Helgi Geir Haarde var í ríkiisstjórninni árið 2006. Ég vil minna þig á það það að sitja í ríkisstjórn er venjulega kallað að vera við völd. Hvers vena? Jú vegna þess að viðkomani er falið vald sem veitir honum/henni aðgang af ýmsum tækjum til þess að stýra efnahags of fjármálum ríkissins. Opnun Icesave reikninga á erlendri grund var t.d. háð leyfi stjórnvalda hér á landi. En það leyfi var veitt árið 2008 vegna Hollands þótt að Geir Haarde og öðrum í ríkisstjórn væri fullljóst í hvað stefndi.
Benidikt ég nenni ekki að fara í þrætur um sálartetur fyrrverandi ráðherra. Ég get eingöngu dregir ályktanir af hegðun þeirra eins ég sé hana.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.9.2010 kl. 17:51
Það er ekki okkar að draga ályktanir um innvolsið í öðru fólki, hvorki um það andlega né líkamlega. Þú getir ekki dregið ályktanir um sjúkdóma eða geðræna kvilla út frá hegðun annarra eins og þér listir. Þú ert hvorki sálfræðingur, geðlæknir né venjulegur læknir en læknar greina ekki fólk án þess að tala við það á stofu!
Ég spurði þig hvort þú værir sammála Lísu Björk Ingólfsdóttur um að Geir væri siðblindur. Ekkert svar.
Hér er grein um siðblindu eftir Nönnu Briem.
Benedikt Halldórsson, 12.9.2010 kl. 18:20
Ég veit ekki hvers vegna þú ert að spyrða mín sjónarmið við sjónarmið Lísu Ingólfsdóttur.
Persónulega þá túlka ég framkomu Geirs Haarde þannig að hann meti það svo að hann eigi ekki að þurfa að standa skil á afglöpum sínum.
Ég treysti mér ekki til þess að meta hvað liggur að baki. Siðblinda eða vísvitandi strategísk viðbrögð til þess að verja sjálfa sig.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.9.2010 kl. 18:42
Ekki lít ég á mig sem neinn sérstakan íhaldsmann en það er önnur saga.
Ég tek alveg undir gagnrýni á það að þessi Landsdómur hafi ekki verið afnuminn. En ég get alveg séð fyrir mér rök andstæðinga Sjálfstæðisflokksins ef hann hefði farið í afnám Landsdóms. Hann hefði verið á þá leið að ráðherrar flokksins væru að fría sig ábyrgð o.s.frv. - að með því gætu þeir gert hvaða mistök sem er og komist upp með þau. Sama gamla flokkatuggan.
Það sem Geir er að benda á er að æða ekki í ákærur hingað og þangað til þess eins að seðja hungur einhverrar nornabrennuklíku í samfélaginu. "Vanræksla" er vafasamt orð og matskennt en eins og Sigurður Líndal hefur bent á þarf refsiheimildin í þessum málum að vera kristaltær, sem hún virðist alls ekki vera.
Auk þess finnst mér umræðan litast af því að allir líti á ríkisvaldið sem einhvern galdrakarl sem getur bjargað hverju sem er, hvaða sökkvandi skipi eða hrynjandi banka sem einkaaðilar reka. Það er stórhættuleg ályktun. Ríkisvaldið er bara handhafar ákveðins "valds" sem þarf að starfa innan ákveðinna ramma og reglna en handhafar valdsins geta ekki galdrað hluti í lag, því miður. Þeir eru ekki guðir sem ráða örlögum alls hér á landi.
Þú sjálfkrafa gerir ráð fyrir að Geir hafi gert afglöp þegar einkafyrirtæki og fjármálakerfi landsins hrynja. Ef bankarnir hefðu verið ríkisfyrirtæki og Geir yfir þeim þá væri þetta kannski annar handleggur og réttmæt gagnrýni. En þeir störfuðu á frjálsum markaði og ríkisstjórnin hafði margt annað að gera en sjá hvernig þeir væru reknir á bakvið tjöldin - sérstaklega á meðan skatttekjur bankanna numu milljörðum árlega.
En það skyldi þó ekki vera að hvað sem þessi auma ríkisstjórn hefði gert þá hefði samt allt hrunið?
Þór (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 01:31
Það er stórhættulegt, Þór, að menn geti með afglöpum í strarf sett þjóðarbúið á hausinn án þess að þurfa standa skil á gjörðum sínum.
Trúlega hafa fáir valdhafar tekið sér eins mikil völd og forysta sjálfstæðisflokksins sem markvisst braut niður allar varnir almennings gegn ofríki þeirra. Það er því klént að koma fram núna og segja að þeir hafi ekki vitað neitt eða getað neitt.
Völd Alþingis voru nánast þurrkuð út, þjóðhagsstofnun lögð niður og síðan tekið við að eyðileggja löggjöfina með fulltingi viðskiptaráðs og LÍÚ.
Ábyrgð Geirs er mikil því hann tók sér mikið vald en hunsaði þær skildur sem því fylgir. Fjármunum var ausið í bankanna, ekkert gert við ónýtri löggjöf, vanrækt að innleiða tilskipanir sem hefðu getað dregið úr skaðanum o.s.frv. Það er bleiðuskapur að standa nú frammi fyrir þjóðinni og klóra sér bara í hausnum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.9.2010 kl. 12:39
Þór segir það sem ég hugsa.
Jókobína. Þú gefur þér fyrirfram að Geir og stjórnmálamenn hafi sett þjóðarbúið á hausinn. Það er einföldun sem stanst ekki.Það er röng ályktun.
Stjórnmálamenn hafa ekki yfirsýn yfir allar koppagrundir eins samfélags. Þegar vel gengur hrósar stjórnmálastéttinn sér fyrir allt það góða sem gerist, með röngu. Þegar bankahrun verður er sömu stétt kennt um hamfarirnar, líka með röngu.
Nú er reynt að sefa reiði fólks með fórnum eins og á myrkum miðöldum. Þá var allt það illa sem einhverjum að kenna, alltaf. Uppskerubrestir, plágur og dauðsföll.
Benedikt Halldórsson, 13.9.2010 kl. 13:19
Það er bleiðuskapur að standa nú frammi fyrir þjóðinni og klóra sér bara í hausnum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.9.2010 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.