Bygg óhæft til manneldis ræktað óvarið

Ég birti þennan pistil fyrir nokkru þegar umræðan um það að leyfa útiræktun á byggi sem búið er að gera ófhæft til manneldis var í umræðunni: 

Í Kastljósi í fyrradag var rætt við Eirík Steingrímsson um útiræktun erfðabreytts byggs til lyfjaiðnaðar. 

Það liggur fyrir að það er hætta á því að byggið dreifist og getur mengað aðrar plöntur. Það liggur líka fyrir að skaðsemi byggsins fyrir menn og skepnur er lítt rannsökuð. 

Hann fullyrðir að góðir vísindamenn komist að því að erfðabreytta byggið sé óskaðlegt en vondir vísindamenn komist að því að byggið sé skaðlegt.

Barley Field 

Eiríkur segir: jú hvað gerist við erfðabreytingu, við setjum ákveðna erfðabreytingu, við hönnum ákveðna erfðabreytingu, við ætlum að setja ákveðin gen inn í byggið í þessu tilfelli og það sem gerist er að þessi erfðabreyting hún fer inn á litning byggsins og þar er hún stöðug. Hún fylgir litningi byggsins. Hún er til staðar í öllum frumum byggsins. Hún fer yfir í næstu kynslóð byggsins og svo framvegis. 

Það er tvennt sem er athyglisvert við þennan málflutning Eiríks. Í fyrsta lagi málið er honum skylt. Hann talar um "við gerum" sem bendir til þess að hann telur sig til þess hóps sem hafa hagsmuni af þessu framtaki. Í öðru lagi kemur skýrt fram að breytingin er varanleg og óafturkræf. 

Ekki þarf nema eitt sæmilegt íslenskt rok til þess að fræ með varanlegum breytingum fjúki um allar jarðir og smiti heilbrigt bygg með genabreytingum sem gera það óhæft til fóðurs eða manneldis. Slíkar breytingar eru óafturkræfar. Ef akur smitast er ekkert annað hægt að gera en að eyða honum. Jafnvel jarðvegurinn er líka ónýtur vegna þess fræin leynast í moldinni.  

Barley For Beer

Það hefur verið í heimsfréttunum að matvælaskortur sé framundan í heiminum. Verð á korni fer hækkandi. Á Íslandi er mikið af ónýttu landssvæði sem hægt er að nýta undir kornrækt. Jarðvinnuverktakar eru atvinnulausir og nægur mannauður til þess að gera landið verðmætt. Loftslag fer hlýnandi þannig að skilyrði til kornræktunar fer batnandi.  Eins og sakir standa er mikið af korni flutt inn bæði fyrir skepnur og til manneldis. 

Það er talað um þörf á atvinnusköpun en möguleikarnir til atvinnusköpunar eru vannýttir og menn einblína á alþjóðafyrirtæki í lyfjaiðnaði og stóriðju sem skilja eftir sig mengað land og nota sáralítinn mannafla auk þess sem þeir hirða allan arðinn af starfseminni og koma sér hjá að greiða skatta.

Eiríkur sakar höfunda greinagerðar frumvarpsins um hjávísindi. Hvort sem Eiríki er það ljóst eða ekki þá stundar hann sjálfur hjávísindi þegar hann setur fram fullyrðingar um skaðleysi ræktunar erfðabreytts byggs undir beru lofti í landinu. Með því að leyfa þetta er verið að stíga skref sem ekki verður tekið til baka. Þetta er mál sem þarf að skoða með félagsvísindalegri nálgun auk þess sem ganga þarf úr skugga með óyggjandi hætti um skaðsemi ræktunarinnar.

 Barley Soup With Sausage

Ef það fréttist að hér sé möguleiki á slysi varðandi matvælaframleiðslu getur það skaðað almennan matvælaútflutning og latt ferðamenn til þess að leggja leið sína til landsins. Málið er í heild sinni í raun skelfilegt og þröngur metnaður virðist keyra menn áfram í markmiðsdrifinni hugsun sem hafnar öðrum afleiðingum en menn telja að þjóni þeirra hagsmunum.  


mbl.is Fá að rækta erfðabreytt bygg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spurning um hvort þú hafir lesið of mikið af vísindaskálsögum.

Þú kannski gerir þér ekki grein fyrir því hversu mikið erfðabreytingar lífvera eru mikilvægar fyrir mannkynið. Hvernig helduru að öll sú gífurlega framleiðsla t.d. af pensílini sé möguleg í heiminum í dag? Nú auðvitað með erfðbreyttum gersveppum sem framleiða það. Einnig er fjöldinn allur af lyfum framleiddur í erfðabreyttum saurgerlum og erfðabreyttum plöntum.

Það hafa verið gerðar fjöldinn allur af rannsóknum um skaðsemi erfðabreyttra lífvera og komið í ljós að þær lifa yfirleitt ekki in the wild nema við kontrólerað aðstæðæur og ENGAR rannsóknir benda til þess að hætta skapist fyrir lífríkið.

Þetta er nefnilega þaulrannsakað en ótrulega margir þverhausar þrjóskast við og segja að ekki sé nóg rannsakað. Vísindamönnum á að treysta, vel virtir vísindamenn fá ekki þá virðingu í sængurgjöf heldur eigna þeir sér virðingu með þeim rannsóknum sem þeir gera. Þær rannsóknir fá mjög mikla gagnrýni frá vísindasamfélaginu áður en þær eru samþykktar.

Vísindamenn vinna ekki eins og bankafólk, fólk þarf að átta sig á því.

Sigmar (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 12:25

2 identicon

Sæl Jakobína

Getur þú kannski rökstutt eftirfarandi fullyrðingar?

"Það liggur fyrir að það er hætta á því að byggið dreifist og getur mengað aðrar plöntur." 

og

"Ekki þarf nema eitt sæmilegt íslenskt rok til þess að fræ með varanlegum breytingum fjúki um allar jarðir og smiti heilbrigt bygg með genabreytingum sem gera það óhæft til fóðurs eða manneldis."

Þessar fullyrðingar eru í algjörri þversögn við rannsóknir sem hafa verið gerðar á málefninu: http://www.landbunadur.is/landbunadur/wglbhi.nsf/Attachment/Rit-LBHI-nr-1/$file/Rit-LBHI-nr-1.pdf

Væri kannski líka áhugavert að þú rökstyðjir þessa fullyrðingu þar sem hún er vægast sagt illskiljanleg:

"...menn einblína á alþjóðafyrirtæki í lyfjaiðnaði og stóriðju sem skilja eftir sig mengað land og nota sáralítinn mannafla auk þess sem þeir hirða allan arðinn af starfseminni og koma sér hjá að greiða skatta"

Karma (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 13:20

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þessar fullyrðingar eru alls eki í þversögn karma (sem ekki treystir sér að skrifa undir nafni). Í skýrslunni segir að ólíklegt megi teljast að bygg dreifist án mannhjálpar hér á landi.

Það hefur margoft verið sýnt fram á að erfðabreyttar lífverur hafi smitað náttúrulegan gróður.

Ég hef hvergi séð sýnt fram á það að þessi tiltekna erfðabreyting sé ekki skaðleg ef hún smitar bygg sem ræktað er til manneldis eða skepnufóðurs.

Ég þarf ekki að rökstyða frekar þessar skoðanir mínar frekar. Líttu bara á efnahagsástandið í landinu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 13:51

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Í skýrslunni segir m.a.:

2. Dreifing erfðaefnis með þroskuðu fræi:

a. Í rúmi: Byggkornið er þungt og fýkur ekki langt. Þó getur það dreifst dálítið í

hvassviðri. Þetta atriði var kannað í rannsókninni.

b. Í tíma: Korn getur fallið niður á hausti, bæði í hvassviðri og eins við skurð.

Hluti þess korns, sem lendir á jörðu að hausti getur lifað veturinn í yfirborði jarðvegs og

spírað næsta vor. Þetta atriði var kannað í rannsókninni.

Væri ekki í lagi að þú lesir skýrsluna áður en þú notar innihald hennar sem rökstuðning.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 13:56

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Erfðabrettar lífverur geta smitað aðrar lífverur, en við erum hér að tala um bygg sem er planta sem kann ekki á íslenska náttúru og frjóvgar auk þess ekki aðra einstaklinga sömu tegundar nema í algerum undantekningartilfellum.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.3.2011 kl. 14:03

6 identicon

Ég hef lesið þessa skýrslu líklegast betur en þú sem virðist bara hafa lesið fyrstu síðuna.

a. Dreifing í rúmi: Rannsóknin sýnir fram á að kornið dreifist ekki í hvassviðri, það fannst ekki lengra en 25 metra frá ræktunarreit.. Þú fullyrðir að það dreifist með vindi. Það kalla ég þversögn

b.Dreifing í tíma: Alls fundust 123 plöntur árið eftir af áætlum 1.500.000 fræjum sem féllu til jarðar. Það gerir 0,0082% spírun næsta vor.

Annars stendur í skýrslunni líka sem þú kýst að vitna ekki í:

a. Milli tegunda: Dreifing á erfðaefni byggs yfir í villtar tegundir er óhugsandi

hér á landi, því að hér lifir engin tegund svo skyld byggi að hún geti frjóvgast af

byggfrjói.

b. Innan tegundar: Byggið er að langmestu leyti sjálffrjóvga. Blómið opnast ekki

fyrr en að lokinni frjóvgun og frævan frjóvgast af frjói úr fræflum í sama blómi.

Fræflarnir fella frjóið sem sagt í lokuðu blómi og þótt frjóið kæmist út úr því eru

grannblómin lokuð og hleypa því ekki inn. Frjókornin eru þar að auki skammlíf.

Dreifing erfðaefnis milli plantna á þennan hátt er því afar ólíkleg, en engu að síður

hugsanleg. Stór hluti af rannsókninni fjallaði um þetta atriði.

Karma (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 14:12

7 identicon

Annars veit ég ekki hvað hræðsluáróður um alþjóðleg lyfjafyrirtæki kemur efnahagsástandinu við?

En það er gott að koma því á framfæri að hér er ekki um að ræða stór alþjóðleg fyrirtæki heldur íslensk fyrirtæki með íslenskt starfsfólk.

En mig grunar nú að þú vitir það en það alltaf hægt að styrkja málstað sinn með því að gefa í skyn að vondir lyfjarisar séu að arðræna landið ;)

Karma (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 14:18

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hér er léttilega skautað yfir þá staðreynd að fræ sem fjúka út fyrir girðingu geta með ýmsu móti borist í aðrar plöntur.

 Það er skautað fram hjá því hvaða afleiðingar það hefur fyrir náttúrulegt bygg ef þessi tiltekna erfðabreyting berst í það.

Það er skautað fram hjá því hvaða þýðingu það getur haft fyrir orðspor íslenskra matvæla ef það gerist.

Það er einnig skautað fram hjá því að ekki hefur veri óyggjandi sýnt fram hjá að það getur gerst.

Það er skautað yfir það að útiræktun á þessu tiltekna erfðabreytta byggi er ekki leyft annars staðar í Evrópu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 14:59

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jakobína, veistu yfirleitt hvað þú ert að tala um? Hvernig geta t.d. fræ borist í aðrar plöntur?

Emil Hannes Valgeirsson, 25.3.2011 kl. 16:02

10 identicon

Jakobína þú ert væntanlega mest hrædd um að fræin fari að frjóvgast úti í nátturunni.

Þá spyr ég þig, veistu hvers eðlis þessar erfðbreyttu plöntur eru?

Helduru ekki að vísindamenn hafa þekkingu til að reyna að sporna við því að það gerist ef það er möguleiki?

Þú væntanlega veist ekki að bygg sjálffrævist að lang mestu en undantekningunum frjóvgast það við önnur fræ en sig sjálft.

Þú stundar hjávísindi ef þú veist ekki þessa hluti.

Maður á ekki bara að velta upp einhverjum áhættuþáttum án þess að vita neitt í sinn haus hvort þeir séu virkilega til staðar.

Sigmar (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 16:18

11 identicon

Hér skautar þú framhjá því að útiræktun á þessu tiltekna erfðabreytta byggi er íslensk uppgötvun og þar af leiðandi hefur aldrei reynt á að fá leyfi til útiræktunar annars staðar í Evrópu.

Hér skautar þú framhjá því að útiræktun annars erfðabreytts byggs er leyfð í Evrópu.

Hér skautar þú framhjá því að útiræktun erfðabreyttra plantna yfirhöfuð er leyfð í mörgum öðrum Evrópulöndum og hundruð slíkra leyfa hafa verið veitt síðustu ár.

Það er ekki skautað framhjá möguleikanum að erfðabreytt bygg berist í hefðbundið bygg. Það er fjallað um það og það er einmitt ein niðurstaða skýrslunnar að bygg víxlfrjóvgist ekki við annað bygg, hvað þá að það víxlfrjóvgist við óskyldar plöntur.

Það er ekki skautað framhjá því að fræ geti fokið. Fjarlægð fokinni fræja frá plöntum er kyrfilega mæld og skrásett. Tilvísun úr skýrslunni: "...má með nokkurri vissu telja að byggkorn geti varla dreifst með vindi lengra en 25 m"

Það er rétt hjá þér að það er skautað yfir orðspor íslenskra matvæla enda fjallar rannsóknin ekki um það.

Engar vísindarannsóknir snýast um eða geta sýnt fram á neitt á "óyggjandi hátt". Það er aldrei hægt að útiloka t.d. að kartöflur byrji að fjölga sér stjórnlaust og leggi undir sig allt ræktunarland Íslands. Líkurnar eru stjarnfræðilega litlar en það er aldrei hægt að útiloka það á "óyggjandi hátt".

Hvað áttu annars við með að fræ "berist í aðrar plöntur"? Áttu þá við að fræin sjálf berist til annarra plantna eða jafnvel fjúki á þær eða þá að fræin eða hluti þeirra berist inn í plöntunar sjálfar?

Annars var fjallað um þessi atriði mun ítarlegar hjá Umhverfisstofnun Íslands og getur eflaust nálgast mun fræðilegri samantekt á því þar, ef þú hefur áhuga að fræðast meira um þetta.

Karma (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 16:21

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

1. Þú vilt kannski benda á hvar í Evrópu heimilt er að rækta korn undir beru lofti sem hefur verið gert óhæft til manneldis með erfðabreytingum.

2. Þegar ég tala um aðrar plöntur á ég við náttúrulegt bygg. Er reyndar undrandi að það sé hægt að túlka það öðruvísi.

3. Náttúran er dýnamísk og ófyrirsjáanleg. Þegar að heill ísbjörn getur borist frá Grænlandi og jafnvel fleiri á sama árinu má gera ráð fyrir að fræ geti flust frá A til B með einhverjum hætti.

4. Það sem getur valdið mestri skaðsemi er ef upp koma tilvik um smit. Orðspor skiptir máli og við viljum gjarna halda í ímynd lands sem framleiðir hrein matvæli.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 16:38

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Við þetta má bæta að um er að ræða tilraunaræktun. Engar rannsóknir ligga fyrir um hvernig plantan hagar sér við slíkar aðstæður. Verða fræin t.d. léttari í útiræktun. Ég leyfi mér að fullyrða að epli sem eru ræktuð inni eru þyngri en epli sem eru ræktuð úti.

Hafa allar spurningar verið settar fram sem skipta máli?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 16:41

14 identicon

1. Ekkert mál. T.d í Tékklandi þar sem nýjast leyfi til ræktunar byggs var veitt síðastliðinn þriðjudag, ekki lengra síðan en það: http://gmoinfo.jrc.ec.europa.eu/gmp_browse.aspx

2. Ok, þú átt við náttúrulegt bygg, en spurningin mín stendur samt eftir. Auk þess benti ég niðurstöður skýrslunnar varðandi víxlfrjóvgun við annað bygg sem er ekki líklegur möguleiki við náttúrulegar aðstæður (hægt er að víxlfrjóvga byggi inni í gróðurhúsi með inngripi manna).

3. Ísbirbnir hafa borist til Íslands af og til gegnum aldirnar. Það er samt engin rök gegn því að banna (eða leyfa) ræktun plantna! Eftir standa niðurstöður skýrslunnar varðandi dreifingu fræja sem fundust ekki fjær ræktunarstað en 25 metra. Ef aðstæður breytast á Íslandi þannig að meðalhitastig hækki um ca. 5 gráður yfir sumartíman er lítið mál að endurskoða öll ræktunarleyfi.

4. Niðurstöður allra vísindamanna sem menntaðir eru á þessu sviði og hafa tjáð sig opinberlega er að hætta á "smiti" sé ekki til staðar. 

"Við þetta má bæta að um er að ræða tilraunaræktun. Engar rannsóknir ligga fyrir um hvernig plantan hagar sér við slíkar aðstæður. Verða fræin t.d. léttari í útiræktun. Ég leyfi mér að fullyrða að epli sem eru ræktuð inni eru þyngri en epli sem eru ræktuð úti."

Þú segir mér að lesa skýrsluna en skv. þessu hefur þú ekki lesið hana sjálf!

Tilraunaræktunin fór fram utandyra enda fjallar skýrslan um möguleikann á dreifingu byggs utandyra.

Karma (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 17:06

15 identicon

"4. Það sem getur valdið mestri skaðsemi er ef upp koma tilvik um smit. Orðspor skiptir máli og við viljum gjarna halda í ímynd lands sem framleiðir hrein matvæli."

Ég myndi segja að það væri mun skaðlegra ef Ísland myndi fá á sig orðsporið sem lýsir sér í því að hér starfa ríkisstjórnir sem hafna öllum vísindalegum rökum og vera land sem fær orðspor á sig fyrir að hunsa vísindalegar rannsóknir.

Erfðabreytt matvæli eru alveg jafn hrein, innihalda sömu prótein og kjarnsýrur. Erfðabreytt matvæli eru búin til úr nákvæmlega sömu frumefnum og þau viltu.

Það hefur örugglega einhver sem var búinn að lesa og horfa of mikið á bandarískt sjónvarp sem kom fyrst með hugmyndina á skaðsemi erfðbreyttra matvæla og lífvera.

Sigmar (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 17:15

16 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Svona af því að blogghöfundur sér ekki ástæðu til að birta kommentin sem skrifuð voru við þessa færslu í fyrra skiptið þá er hér tengil á þau.

Haraldur Rafn Ingvason, 25.3.2011 kl. 18:02

17 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

1. Þetta er því miður annars konar ræktun og þar fyrir utan leyfð í mun minna mæli en menn hyggja á hér á landi. Það skiptir miklu máli hvers eðlis erfðabreytingin er og hver skaðinn er ef breytingin berst í annað korn sem ætlað er til manneldis.

2 - 3 Það skiptir ekki máli hvort víxilfrjóvgun sé möguleg við tilteknar aðstæður því aðstæður breytast og tilvik koma upp. Ef það skeður hvernig er þá hægt að draga slíkt til baka. Brenna uppskerur? Hver á að bera kostnaðinn? Verður búið að skipta um kennitölur þeirra sem eru ábyrgir?

4. Þegar ég tala um smit þá á ég við að fræ geti borist á aðra akra og smitað aðra uppskeru með eiginleikum sem gerir hana óhæfa til skepnufóðurs eða manneldis.

Þú verður að fyrirgefa en vísindamenn eru ekki heilagir eða óskeikulir. Vísindamenn geta ekki fullyrt að að þessar tilraunir séu óskaðlegar.

Sigmar það er ekki verið að tala um matvæli hér því þessi prótein eru ekki til manneldis. þetta eru prótein sem ætluð eru til lyfjaiðnaðar.

Ég tel það vera skaðlegt fyrir orðspor vísinda á Íslandi að menn gangi fram með fullyrðingar sem standast ekki skoðun.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.3.2011 kl. 18:29

18 identicon

1. Að sjálfsögðu er um annars konar ræktun. Öll ræktun er mismunandi og þar af leiðandi ekki hægt að nota það sem rök gegn ræktun að hún sé ekki til nú þegar.

Auk þess er þetta ekki eina dæmið um ræktun erfðabreytra korntegunda í Evrópu, þetta var bara nýjasta dæmið, tæplega viku gamalt. 

2-3. Það skiptir öllu máli að bygg sé ekki víxlfrjóvgandi planta. Að þú haldir því fram aðstæður geti breyst þannig að tegund lífvera breyti allt í einu grunnlífeðlisfræði sinni sí svona sýnir hversu litla þekkingu á líffræði þú hefur. Líkurnar á að það gerist eru áíka miklar og að kartöflur breiði allt í einu úr sér og taki yfir allt tæktunarland Íslands.

4. Skýrslan sem ég vísa í kemst að þeirri niðurstöðu að byggfræ fjúki ekki lengra en 25 metra, þannig komast fræin ekki í aðra akra ef það er meira en 25 metrar á milli. Ofan á það er sú lífeðlisfræðilega staðreynd að bygg er eingöngu sjálffrjóvgandi planta. Þannig er þessar vangaveltur eingöngu hræðsluáróður.

"Ég tel það vera skaðlegt fyrir orðspor vísinda á Íslandi að menn gangi fram með fullyrðingar sem standast ekki skoðun."

Samt kemur þú með fullyrðingar án nokkurra vísindalegra raka og túlkar rannsóknir á þinn hátt án þess að hafa fyrir því að lesa þær.

Karma (IP-tala skráð) 27.3.2011 kl. 15:12

19 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Karma ég hef ekki haldið því fram að ég hafi mikla þekkingu á líffræði en ég þekki bullshit þegar ég sé það.

2-3 ég segi ekki að grunnlífeðlisfræði breytist. það sem ég er að benda á er að veðurfar breytist...þ.e aðstæður plöntunnar.

Ég er nægilega vel að mér í rannsóknum til þess að gera mér grein fyrir því að þið eru nokkuð kokhraustir og fullyrðingaglaðir.

Ég er aðallega að varpa fram spurningum og draga í efa fullyrðingar en slíkt þykir venjulega vera til sóma í vísindasamfélaginu þótt þið séuð greinilega á annarri línu.

Þess vegna treysti ég ykkur ekki.

Það eru vondir vísindamenn sem þola ekki spurningar

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.3.2011 kl. 00:55

20 identicon

Veðurfar hefur engin áhrif á æxlunarferil plöntunnar þannig að þó aðstæður breytist hefur það engin áhrif á þann hátt.

Að segja "37 menningana" og aðra vísindamenn sem tjáð sig hafa um þetta vera með bullshit án þess að gera tilraun til að svara rökum þeirra með öðrum fræðilegum rökum dæmir sig sjálft. 

"Ég er aðallega að varpa fram spurningum og draga í efa fullyrðingar en slíkt þykir venjulega vera til sóma í vísindasamfélaginu þótt þið séuð greinilega á annarri línu."

Það eina sem viðmælendur þínir hér hafa gert er að svara spurningum og vangaveltum þínum málefnalega og með bestu fræðilegu vísindaþekkingu sem er til staðar í dag. Aftur á móti bregst þú hart við þegar þú færð svör við eigin spurningum, sakar aðra um hlutdrægni, hroka, ýjar að hagsmunatengslum og sakar um hjávísindi þegar þú ert að því sjálf skv. eigin skilgreiningu.

Hvers vegna að varpa fram spurningum þegar þú vilt greinilega ekki að þeim sé svarað?

Hvað má segja um spyrjandann sem bregst svona við svörum spurninga sinna?

Karma (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 10:48

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég hef hvergi minnst á þessa 37 menninga og lít á fullyrðingu þína "Að segja "37 menningana" og aðra vísindamenn sem tjáð sig hafa um þetta vera með bullshit án þess að gera tilraun til að svara rökum þeirra með öðrum fræðilegum rökum dæmir sig sjálft" sem gott dæmi um rökleysuna í þessari umræðu.  

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.3.2011 kl. 13:15

22 identicon

Ha?

"Ég hef hvergi minnst á þessa 37 menninga"

Reyndar fjallar pistillinn þinn nær eingöngu um Eirík Steingrímsson þegar hann kom fram fyrir hönd þessa hóps.

En jæja, ég læt þetta vera lokakommentið hérna. Ég var að vonast eftir málefnalegum umræðum en það virðist ekki vera í boði. Og þegar þú kannast ekki einu sinni við textann sem þú varst að skrifa er best að kalla þetta gott.

Karma (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband