Að reisa við efnahag þjóðar

Undanfarin ár hefur fjölskyldufólk trúað á bjarta framtíð og skipulagt fjármál sín í trausti upplýsinga frá bönkum og yfirvöldum um fjármál og efnahag. Bankarnir gera greiðslumat sem fólk trúir á og yfirvöld gefa út yfirlýsingar um trausta efnahagsstjórn sem einnig átti að vera leiðavísir fyrir fólk.

Hver getur ekki sett sig í spor þessa fólks nú. Forsendurnar eru brostnar. Útreikningar bankanna voru fleipur einar, traust efnahagsstjórn reyndist spilavíti valdhafanna og nú vilja þeir að fjölskyldurnar borgi. Blóðið er kreist undan nöglum þeirra sem verst eru settir.

Það er ljóst að sú staða sem hefur skapast hjá fjölskyldufólki í landinu er bein afleiðing af hagstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar. Þessir flokkar sem keyptu sér atkvæði árið 2003 ganga nú aftur fram og ætla að kaupa sér atkvæði með falsúrlausnum.

Jóhönnu Sigurðar dreymir um greiðsluaðlögun en þetta hugtak hefur verið henni hugleikið lengi. Greiðsluaðlögun felur í sér að greiðslubyrði minnkar en skuldir aukast.

Ágætur fræðimaður sem ég hef nokkurt dálæti á, Peter Senge, bendir á að lausnir fortíðar verða oft vandamál framtíðar

Það þarf að beita lausn sem virkar

Ég mæli með lausn sem hagfræðiprófessorinn og fyrrum Wall Street sérfræðingurinn Michael Hudson mælir með.

Það er að greiðslubyrði lána verði færð niður að greiðslugetu fólks. Það þarf að fyrirbyggja að fólk gefist upp og tryggja greiðsluflæði til stofnanna. Greiðslubyrði lána þarf að vera færð til samræmis við ráðstöfunartekjur fólks þannig að afgangur sé til þess að halda uppi annarri neyslu.

Það þarf að aðstoða fólk sem hefur keypt sér of stórar eignir til þess að flytja sig í minni eignir og aðlaga fjárhaginn að því. Þær aðgerðir sem gripið er til þurfa að skapa fólki raunhæfan kost og leysa það úr skuldaánauð.

Hugmynd sjálfstæðisflokks of framsóknar felur í sér að þeir sem hafa haft mestar tekjur og tekið hæst lán fái mesta ríkisstyrki til þess að greiða niður lán. Hætt er við að þetta leki síðan út í skattheimtu. Verði að vandamáli framtíðar.

Raunhæfur kostur þýðir að fólk á ekki að greiða margfalt markaðsvirði fyrir eignir.

Fyrirgreiðslur til fyrirtækja þurfa að taka mið að því að halda upp atvinnulífi í landinu. Það á ekki að gefa fyrri eigendum fyrirtæki sem þeir eru búnir að setja í þrot heldur á að gefa starfsmönnum kost á að eignast fyrirtækin. Starfsmenn eru mun líklegri til þess að gæta þess að keyra ekki fyrirtæki í þrot aftur með óráðssíu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er spennandi lausn að færa greiðslubyrði lána að greiðslugetu fólks.  Eitthvað sem raunverulega gæti virkað.  Þetta gæti hjálpað til að reisa fjárhag þjóðarinnar við. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.3.2009 kl. 01:11

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Lausnir fortíðarinnar - vandamál framtíðarinnar!" Vel að orði komist og hittir þetta viðfangsefni afar vel. Það er auðvitað engin einföld lausn í sjónmáli þarna og nú er ég hræddur um að þessi skelfilega skuldastaða heimilanna verði notuð sem gulrót við að kaupa atkvæði. Þá fengi þetta spakmæli tvöfalda merkingu.

Það er mikill misskilningur og ósanngirni að halda því fram að verðtryggingin sé eðlileg leiðrétting á skuldastöðu og byggist á að skila sömu verðmætum og tekin voru að láni. Þegar virði íbúðar sem keypt var fyrir 30 milljónir sem teknar voru að láni er komin niður í 18 m. en lánið komið í 50 milljónir þó staðið hafi verið í skilum með afborganir þá er mikil skekkja í dæminu.

Lántakandinn bar enga ábyrgð á verðbólgunni og verðhruninu. En ef hann greiðir upp lánið þá fær lánveitandinn til baka virði þriggja íbúða -tæplega- lánaði fyrir einni og fékk allan timann vexti af láninu!

Þetta mál þarf að nálgast af mikilli yfirvegun og leysa með sanngirni. Sú sanngirni hlýtur að byggjast á því að deila niður á báða aðila tjóninu sem óðaverðbólgan olli.

Og svo byggist sanngirnin líka á því að refsa harðlega þeim sem ábyrgðina báru á því að tæla fólk út í ófæru.

Hýðing á almannafæri gæti verið góð byrjun.

Árni Gunnarsson, 1.3.2009 kl. 10:35

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Allar forsendur fyrir lánum eru löngu brostnar. Það ætti að gefa eftir hluta skulda vegna íbúðakaupa sem hafa skapast vegna ástandsins.

Rut Sumarliðadóttir, 1.3.2009 kl. 14:04

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er afar spennandi lausn en harla ólíklegt að hún njóti náðar valdhafanna enda of einföld og augljós til þess.

Arinbjörn Kúld, 1.3.2009 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband