Martröð í boði valdhafanna

Verður martröðin að veruleika? Þannig spyr “Vinni” á spjallsíðunni www.malefnin.com og hann heldur áfram:

Það er komið sumar og kreppan bítur fast, vonleysi og drungi færist yfir samfélagið og fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum af uppsögnum, gjaldþrotum og öðrum hörmungum. Alþingi er í sumarfríi og ný ríkisstjórn er að setjast við kjötkatlana eftir kosningarnar. Þar mun hún sitja næstu 4 árin í ró og næði. Fjórflokkurinn kom nefnilega alveg óskaddaður út úr kosningunum. Sumarið og haustið fer í að raða flokksgæðingum á garðann. Óopinber stjórnarsáttmáli innifelur að ekki megi rugga bátnum um of með því að fara rækilega í saumana á því sem gerðist hér í aðdraganda kreppunnar. Annar stjórnarflokkurinn, eða jafnvel báðir eiga nefnilega nægilegt magn af óhreinum þvotti úr fortíðinni sem ekki má viðra.

Það er mikið líf í kringum stjórnmálaflokkanna sem fengu andlitslyftingu í kosningunum með því að skipta út fáeinum þreyttum andlitum. Þetta mikla líf helgast af því að fyrir liggur sjaldgæft tækifæri fyrir stjórnmálastéttina, áhangendur hennar og velgjörðamenn. Tækifærið felst í því verkefni að endurskipuleggja eignarhaldið á íslandi, bönkum, flestum fyrirtækjum landsins, að ógleymdum náttúruauðlindunum - virkjunum, fiskimiðunum o.s. frv. Oft hefur verið handagangur í öskjunni á Íslandi að komast í gott talsamband við stjórnmálamenn eða til áhrifa innan flokkanna en aldrei sem nú. Enda ekki á hverjum degi sem eignarhald á heilli þjóð er endurskipulagt. Hagsmunaklíkurnar að tjaldabaki eru því allar á hjólum og varla unnt að finna óbrenglaðar fréttir um nokkurn skapaðan hlut í áróðursflóðinu þar sem reynt verður að stýra hugmyndum í réttar áttir; þ.e.a.s þannig að auðurinn renni enn og einu sinni í rétta vasa.

Að sjálfsögðu hefur ekki náðst nein niðurstaða í eflingu lýðræðisins og endurskoðun stjórnarskrár er í nefnd. Nýja Ísland er líka komið í nefnd.

Þetta er martröð – martröð sem getur hæglega ræst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband