Hollendingar og Bretar græða á Icesave: beita ESB vopninu

Samkvæmt tilskipun ESB er ríkissjóðum aðildarlandanna ekki heimilt að veita tryggingarsjóðum innistæðna, í viðkomandi löndum ríkisábyrgð. Sjá hér.  Þetta ákvæði hefur trúlega verið sett til þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu aðildarlandanna. Textinn á ensku segir: "The system must not consist of a guarantee granted to a credit institution by a Member State itself or by any of its local or regional authorities."

Þetta þýðir að samkvæmt tilskipun ESB mega hvorki Íslendingar né aðildarlönd ESB veita tryggingarsjóðum ríkisábyrgð. Það er í hrópandi andstöðu við tilskipun ESB að krefjast þess að ríkið ábyrgist innistæður banka í einkaeigu. Það er alveg sama hvaða rökum er beitt. Þetta er grundvöllur reglna ESB og við það situr.

Íslendingum var skylt að stofna tryggingarsjóð innistæðna og það gerðu þeir og uppfylltu því að fullu kröfur ESB svæðisins.

En þetta er bara byrjunin.

Samkvæmt tilskipun ESB eru tryggingarsjóðirnir (ekki viðkomandi aðildarlönd, þ.á.m. Ísland) ábyrgir fyrir fjárhæðum upp að 20.877evrum.

Það mætti því ætla að krafa Breta lúti að því að tryggingarsjóðurinn standi við þessa lögbundnu skuldbindingu. Það mætti einnig ætla að Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími Joð og Svavari Gestssyni þætti því hámark að gera skuldbindingar sem nema þeirri fjárhæð.

Nei Jóhönnu, Steingrími og Svavari finnst að Íslendingar eigi að gera betur. Þau hafa gert samning og undirritað samning við Breta og Hollendinga sem skammta þeim meira en 20.877 evrur á hvern innistæðueiganda.

Ég ætla ekki að reyna að skilja fyrir hverju þetta fólk gengur eða fyrir hverja það vinnur. Ég veit bara að þau ætla að gefa Bretum og Hollendingum 300 milljarða aukalega því ég trúi því sem Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson skrifa um það. Ég geri hreinlega ekki ráð fyrir því að þeir séu að ljúga.

Innistæður eru forgangskröfur og samkvæmt samningnum eiga Bretar og Hollendingar forgangskröfu til helmings eigna Landsbankans á móti Íslendingum. Þessar heimtur teljast því ekki sem eign Íslendinga á móti kröfum Breta og Hollendinga. Ekki einu sinni Tryggvi Þór gæti fengið fram þá niðurstöðu í sínum reikningskúnstum.

Síðustu tölur um Icsave voru um 730 milljarðar. Ef eignir Landsbankans eru 300 milljarðar þá fá Íslendingar 150 milljarða upp í kröfur Breta og Hollendinga, Bretar og Hollendingar fá þá aðrar 150 milljarða en íslenskir skattgreiðendur þurfa að borga 580 milljarða (þrátt fyrir að tilskipun ESB heimili það í raun ekki) auk vaxta sem verða um 300 milljarðar eftir sjö ár. Miðað við þetta dæmi hafa Bretar og Hollendingar þá fengið um 1.200 milljarða eftir sjö ár. Það er 1.200.000.000.000 og það í gjaldeyri. Hvar ætlar Jóhanna að finna svona mikinn gjaldeyri?

Bretar græða svo um 100 milljarða bara á vaxtamun því þeir fá mun hagstæðari vaxtakjör en Íslendingar.

Það má því segja að samningurinn sem Svavar Gestsson gerði við Breta og Hollendinga sé nokkuð hagstæður fyrir Breta og Hollendinga. Þeir fá fulla tryggingu sem tryggingasjóður innistæðna átti að standa fyrir auk þess sem þeir fá helming þess sem reitist til af eignum landsbankans og græða svo 100 milljarða á vöxtum sem þeir setja á kröfurnar.

Það er augljóst að versti kosturinn fyrir Íslendinga er að skrifa undir þennan samning. Svo einfalt er það. Það má ekki einu sinni skrifa undir hann með fyrirvara því með því að gera það er verið að samþykkja ólögmæta ríkisábyrgð. Um leið og alþingi samþykkir ríkisábyrgð þá er úti um samningsstöðu Íslendinga.

Samningurinn gengur í meginatriðum gegn tilskipunum ESB.

Það sýnir vel hversu morkið þetta valdabákn ESB er að Bretar og Hollendingar skuli beita fyrir sig ESB til þess að þvinga annað ríki til þess að ganga að skilmálum sem eru í hrópandi andstöðu við tilskipun bandalagsins.

Það hefur komið skýrt fram að það er hugmynd yfirvalda bæði í Bretlandi og Hollandi að þráhyggja samfylkingarinnar um inngöngu í ESB er vopn í höndum þeirra til þess að þvinga ríkisstjórnina til þess að skrifa undir samninginn. Óréttmætan samning sem kemur tapi af viðskiptum í útlöndum yfir á íslenskan almenning sem vissi ekki einu sinni um þessi viðskipti.

Það er alveg ljóst að þegar hreinni rökfræði og skynsamlegri túlkun er beitt þá er málstaður Breta og Hollendinga mjög vafasamur. Ég skil hvers vegna Bretar og Hollendingar þvæla út í eitt í stað þess að halda sig við staðreyndir. Þeir vilja einfaldlega græða og sjá sér leik á borði.

Það sem ég skil hins vegar ekki er hvers vegna ríkisstjórnin þvælir út í eitt í stað þess að halda sig við staðreyndir. Hvað ætla þau að græða annað en það að komast á blað í Íslandssögunni fyrir versta klúður frá gamla sáttmála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jakobína,

Góð færsla með sterkum rökum.  Vandamálið er ekki bara samningsklúðrið heldur tímasetningin sem afhenti Bretum og Hollendingum öll vopnin.  Það átti fyrst að sækja um ESB aðild áður en við báðum um hjálp frá IMF en fyrst það var ekki gert átti að ljúka Icesave á undan ESB.  

Í öðru lagi gerðu menn í Brussel sér aldrei grein fyrir að mál eins og Icesave yrði hápólitískt og gæti skaðað ESB samstarfið.  Hér eru þeir að vernda hagsmuni 400m á móti 300,000.  Stærð skiptir máli.  

Spurningin er, ef ríkisábyrgð er ekki leyft en þeir fóru fram á hana hvað báðum við um á móti?  Var okkur lofað einhverju sem ekki hefur komið fram?

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.7.2009 kl. 06:59

2 Smámynd: Gerður Pálma

Frábær grein, mjög fræðandi. 
Hver er fulltrúi ríkisins sem sér um kynningar á sjónarmiðum til erlendra fréttamiðla? Hverjar eru þær upplýsingar sem við látum frá okkur fara?
Innihald þessarar greinar á fullt erindi inn í umræðuna í Hollandi og Bretlandi, almenningur þar veit einungis það sem fellur af borði þarlendra stjórnvalda.
Ég er þess fullviss að ef almenningur í þessum löndum áttar sig á staðreyndum þá kæmi stuðningur úr þeirri átt við Ísland.  

Gerður Pálma, 23.7.2009 kl. 08:26

3 identicon

Mér finnst röksemdafærslan vera mjög einkennileg . Á bannið við ríkisábyrgð við innistæðutryggingakerfið eða einstök lán tengd því? Formaður stjórnar innistæðutryggingarsjóðs var í samninganefndinni . Telur þú að hann hafi ekki þekkt tilskipunina eða reglur sjóðsins? Ef þú hefur rétt fyrir þér er þá ekki samningurinn ólöglegur?Lögfræðitúlkun á gjaldþrotarétti og trú eru sitt hvað . Ég gæti ákveðið að trúa , t.d. Ástráði Haraldssyni og Ástu Ólafsdóttir . Útreikningaar yrðu líklega aðrir en þínir og örugglega aðrir en prósentureikningar Tryggva Þórs . Ef það kemur í ljós að haldbesta túlkun sé þeirra Ragnars og Eiríks verður Alþingi að setja fyrirvara við samninginn . Það eer eins gott að allir geri sér grein fyrir alvöru málsins .

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 09:46

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Glæsilegt Jakobína, þetta er svipað og ég er búinn að vera að skrifa um frá því í vetur, og aldrei er góð vísa of oft kveðin. Ég missti reyndar athyglina þegar kom að útreikningunum enda skipta tölurnar litlu máli að mínu áliti, þær eru hvort eð er allar svo gríðarstórar. ;) Auk þess er borin von að áætlanir sem gerðar eru í svona árferði þar sem óvissa er gríðarleg, muni nokkurntíma ganga eftir.

Ég vil samt gjarnan bæta við í röksemdafærsluna, og vek því athygli á áliti Ríkisendurskoðunar sem kemur fram í skýrslu vegna endurskoðunar ríkisreiknings 2007, en þar er mælt með því að fella Tryggingasjóð innstæðueigenda út úr D-hluta ríkisreiknings og segir orðrétt um það á tveimur stöðum (bls. 9 og bls. 57): "Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans."

Svo eru bresku og hollensku innstæðutryggingasjóðirnir nú þegar búnir að bæta innstæðueigendum í viðkomandi löndum tjón sitt umfram lögbundna lágmarksskyldu. Fái þeir á móti því forgangskröfu í þrotabú Landsbankans hafa þeir þá í reynd yfirtekið greiðsluskyldu íslenska tryggingasjóðsins ásamt endurkröfuréttinum í þrotabúið, og þar með ætti sá íslenski í raun að vera laus undan ábyrgð sinni jafnvel þó Alþingi hafni samningnum sem fyrir því liggur. Það þarf ekkert að flækja þetta meira, þeir einu sem hafa hag af því að gera það eru Bretar og Hollendingar, en það engin ástæða til að borga þeim umfram skyldur, ekki tel ég þá a.m.k. eiga slíkan greiða inni hjá okkur.

Sumir halda því fram að við séum nú þegar skuldbundin til ríkisábyrgðar vegna einhverra minnisblaða eða áður gefinna yfirlýsinga af hálfu stjórnavalda, eða vegna þess að nú þegar hafi fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifað undir IceSave samninginn. Við því er til einfalt svar: nei, slík ábyrgð myndi stangast á við stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, þar sem segir í 40 gr.: "Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild." Það eina sem löglega getur skuldbundið íslenska ríkið fyrir nokkuri ábyrgð er semsagt að Alþingi samþykki lög eða þingsályktun þar að lútandi, fyrr er ekki nein ábyrgð fyrir hendi og getur aldrei orðið. Þessvegna gat samninganefndin eingöngu skrifað undir IceSave samningana með fyrirvara um samþykki Alþingis. Látið ekki einhverja útrásar-spunameistara telja ykkur trú um annað, það eina sem þeir hafa áhuga á er að fá áframhaldandi aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum til að taka meiri lán, kaupa upp þrotabúið Ísland og halda svo áfram sama sukkinu og vitleysunni.

Að lokum vil ég nefna að ef ábyrgð vegna samningsins fellur á íslenska ríkið er því óheimilt að fjármagna hana með skattgreiðslum okkar, þar sem engin heimild var til slíks í lögum þegar samningurinn var gerður og því síður þegar einkafyrirtækið Landsbankinn stofnaði til þessara skuldbindinga. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar stendur það skýrum orðum: "Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu." Ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað sér að fjármagna hugsanlega ábyrgð vegna IceSave umfram andvirði eigna Landsbankans, en það er a.m.k. morgunljóst að henni er ekki heimilt að gera það með skattgreiðslum mínum, fjölskyldu minnar eða annara Íslendinga. Þar sem einu tekjur ríkissins eru skattekjur þá verður vandséð að það geti lögum samkvæmt staðið undir slíkri ábyrgð ef á það mun reyna. Í því sambandi er greiðslugeta algert aukaatriði, heldur má það einfaldlega ekki!

Guðmundur Ásgeirsson, 23.7.2009 kl. 11:55

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hrafn Arnarson mér finnst mjög einkennilegt að þú skulir kalla beina tilvitnun í texta ESB tilskipunar röksemdarfærslu. Hvað varðar veru formanns stjórnar innistæðusjóðs í nefndinni þá gef ég lítið fyrir það miðað við vinnubrögðin. Ég veit ekki hver sá aðili er en geri ráð fyrir að þetta sé einhver klíkuráðinn kerfiskarl.

Jú Hrafn auðvitað er þessi samningur ólöglegur. Hrokinn og óskammfeilnin er orðin slík hjá stjórnmála- og embættismönnum að þeir telja sig hvorki vera bundin af landslögum né heldur stjórnarskrá.

Það sem er alvara málsins í þessu tilfelli er framganga yfirvalda sem ljúga, blekkja og leyna til þess að koma ólögum að.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.7.2009 kl. 15:07

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Gerður getur þú ekki snarað þessu yfir á hollensku og fengið birt í hollenskum fjölmiðlum?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.7.2009 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband