Lýðræði og þekking

Skilningur á hugtakinu lýðræði er nokkuð á reiki. Enska hugtakið democracy er dregið af gríska orðinu demokratía sem þýðir „rule of the people“ eða fólkið ríkir. Jafnræði og frelsi er jafnan óumdeilt einkenni lýðræðis. Bein þátttaka almennings annars vegar og stjórnskipan hins vegar eru ráðandi þættir um það hvort að fyrirkomulag stjórnarhátta geti talist lýðræðislegir eða ekki. Meirihlutaræði eins og tíðkast á Íslandi getur haft í för með sér kúgun ef einstaklingum eru ekki tryggð mannréttindi í lögum og stjórnarskrá og ef reglur um mannréttindi eru ekki virtar.

Í grein sem birt er á síðu „The International Center for Peace and Development“ segir um lýðræði að þrátt fyrir að byggja megi lýðræði upp á marga vegu sé grundvöllur lýðræðis að mannréttindi séu virt. Að hver einstaklingur njóti verndar samfélagsins og að vilji almennings en ekki vilji stjórnmálastéttarinnar endurspeglist í aðgerðum ríkisvaldsins.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa í áratugi vanvirt lýðræði og byggt upp tálsýn til þess að fela lýðræðishalla á Íslandi. Frelsi og réttindi einstaklinga hafa verið fyrir borð borin til þess að tryggja persónulegan ávinning einstakra stjórnmálamanna og valdablokka sem tengjast þeim.

Hluti af því sem tryggir lýðræði í samfélagi eru góðar upplýsingar, gagnsæi og skilningur á því hvernig lýðræði verður til og hvað skiptir máli í lýðræðislegu samhengi. Almenningur þarf að hafa góðan skilning og þekkingu á þeim málefnum sem eru ráðandi um velsæld í samfélaginu. Leyndarhyggja og áróður eru því andstæðingar lýðræðis. Þekking, skilningur og upplýsingar eru hins vegar vinir lýðræðis. Þekking er ekki utanbókarlærdómur. Þekking er það hreyfiafl sem mótar samfélagið. Almenningur þarf að hafa góðar upplýsingar um það hvaða hagsmunum frambjóðandi hyggst þjóna til þess að geta staðið með sjálfum sér í kosningum. Þingmenn þurfa góðar upplýsingar um málefni til þess að geta beitt atkvæði sínu í samræmi við þá stefnu sem þeir hafa lofað að fylgja.

Grundvöllur lýðræðis er þekking og kerfi sem tryggir þátttöku almennings í veigamiklum ákvörðunum sem varða fyrirkomulag stjórnskipunar, fullveldi og nýtingu auðlinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband