Titlar sig prófessor en skilur hann hugtök og samhengi?

Í pistli á Vísi lætur Baldur Þórhallsson hafa eftir sér að ESB auki efnahagslegt öryggi. Mörg aðildarríki ESB búa nú við miklar efnahagslegar þrengingar. Í tilviki litlu ríkjanna í austanverðri Evrópu má skrifa þrengingarnar á aðild að ESB. Stærri ríki innan ESB hafa gert innreið í þessi ríki og eyðilagt sjálfburða innviði þeirra.

Prófessorinn segir að veigamesta verkefni ráðamanna sé að tryggja borgurunum öryggi. Öryggisleysi borgaranna hefur vart verið meira en nú. Samfylkingin hefur setið í Ríkisstjórn í tvö ár og verður ekki sé að hún hafi á nokkurn hátt aukið öryggi borgaranna.

Af skrifum prófessorsins má lesa að stærri einingar tryggi efnahagslegan stöðugleika. Hvers vegna hefur efnahagslegur stöðugleiki ekki verið af eins skornum skammti í heila öld í Evrópu nú þegar hún hefur að mestu sameinast undir hatti ESB? Ekki eru Bandaríkin lítil en þar ríkir nú alvarlegt öngþveiti í efnahagsmálum.

Ágætt væri ef prófessorinn skýrði betur hvað hann á við með efnahagslegum stöðugleika og hvað hann á við með hugtakinu fjármálakreppa. Prófessorinn segir "Tryggt skjól hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum síaukinnar alþjóðavæðingar sem stýrist að stórum hluta af flæði fjármagns." 

Þessi setning rifjar upp fyrir mér setningu Jóns Baldvins þegar Ísland skrifaði undir EES samninginn "við fáum allt fyrir ekkert". Var "tryggt skjól" innifalið í þessu "öllu" Jóns Baldvins? Hafa Íslendingar ekki kynnst nægilega vel tryggu skjóli ESB? Grimmd ESB sem beitti fyrir sig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í haust til þess að þvinga Íslenska skattborgara til þess að taka á sig skuldbindingar sem öll marktæk lögfræðiálit stríða gegn ætti að vera mönnum ferskt í minni.

En hvað er þá efnahagslegur stöðugleiki? Hugtakið hlýtur að fela í sér samfélagslegt jafnvægi sem forsendu. Til þess að efnahagslegur stöðugleiki megi vera raunveruleiki sem almenningur skynjar dugir það ekki eitt til að bankarnir búi við góðan efnahag. Enda er góður efnahagur bankanna skammlífur ef fjölskyldur og atvinnulíf búa ekki við góðan efnahag.

Prófessorinn dettur í þá gryfju að telja það gefið að Ísland eigi að þróast á forsendum alþjóðavæðingarinnar. Alþjóðavæðingin byggir á forsendu nýfrjálshyggjunnar sem skynjar fjármálakerfi sem sjálfstæða einingu sem lifir á almenningi. Þessi hugmyndafræði fæðir af sér fjármálakreppur og efnahagslegan óstöðugleika.

Efnahagslegur stöðugleiki byggir á því að atvinnulíf sé farsælt, að fjölskyldur búi við fjárhagslegt öryggi og að fjármálakerfið sé þjónn almennings en ekki húsbóndi. Til þess að tryggja efnahagslegar forsendur fyrir búsetu á Íslandi þarf að verja það fyrir alþjóðavæðingunni en ekki færa það í kjaft þess eins og prófessorinn virðist vilja gera.

Opnun landamæra fyrir frjálsu flæði innan Evrópu hafa skapað öngþveiti meðal aðildaríkja. Alþjóðafyrirtæki hafa dregið úr mætti og sjálfbærni minni ríkja en á sama tíma skapað vandamál í fjármálakerfum stærri ríkja vegna brostins gjaldþols minni ríkja.

Prófessorinn virðist ekki enn hafa skilið að aðild að ESB fylgir ekki upptaka evru. Til þess að taka upp evru þarf Ísland að uppfylla Mastrict skilyrðin en talið er að það muni taka Ísland 30 ár. Að Mastrict skilyrðunum uppfylltum myndi efnahagur þjóðarinnar vera það traustur að óþarfi væri að losa sig við krónuna. Upptaka evru á forsendum ESB verður því aldrei raunhæf lausn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Takk fyrir góðan pistil. Ég er þér hjartanlega sammála. Enginn, sama hvort það er einstaklingur eða heilt þjóðfélag, getur fengið efnahagslegt jafnvægi frá öðrum en sjálfum sér. Kannski hefur prófessorinn verið veikur þegar þau sannindi voru kennd, eða slíkt verið aukaatriði í hans faggrein.

Guðbjörn Jónsson, 7.7.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Baldur virðist ekki enn búinn að átta sig á því að Íslendingar lifa að miklu leyti á sjávarútvegi og með því að gangast undir regluverk sambandsins þá er verið að grafa undan fiskveiðum.

Sigurjón Þórðarson, 7.7.2009 kl. 15:54

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Engin rós er án þyrna. Líklega má skoða það svo að eitthvað jákvætt fylgi innlimum Íslands í ESB. Aftur á móti er svo hitt að örþjóð sem við erum og búum við miklar og dýrmætar auðlindir tökum þarna áhættu sem engin viti borin stjórnvöld mega láta sér til hugar koma að leggja í.

Árni Gunnarsson, 7.7.2009 kl. 16:24

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Stóri vandinn við ESB er að það er hvorki fulg né fiskur. Það er hvorki ríki né frjálst samstarf ríkja heldur einhverskonar blanda. Þannig eru t.d. bankarnir á evrusvæðinu enn á ábyrgð hvers ríkis fyrir sig þrátt fyrir að ríkin hafi gefið frá sér peningarprentunarvaldið sem er forsenda þess að hægt sé að standa við slíka ábyrgð. Eins og við þekkjum allt of vel hér á Íslandi gildir það sama fyrir þau lönd sem standa utan evrusvæðisins en eru með banka sem eru með útibú sem taka við innstæðum í öðrum gjaldeyri en þau geta prenntað.


Vandinn er þarna að ekki fer saman ábyrgð og vald til að standa við þessa ábyrgð og þetta er
gegnumgangandi vandamál í ESB sem drýfur áfram samrunaferlið í ESB sem aðeins getur endað í einu ríki eða splundrun. Það er sökum þessa ójafnvægis milli valda og ábyrgðar sem ég tel að það sé mun vænlegra að ganga í annað ríki s.s. Noreg eða Kanda ef menn á annað borð gefast upp á að reka hér sjálfstætt samfélag.

Héðinn Björnsson, 7.7.2009 kl. 16:58

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég tek undir þetta Héðinn. Það er galli í grunnhugmyndinni að ESB.

Ísland hefur ekki farið varhluta af þeim galla en samt sem áður eru ýmsir spekingar í afneitun og halda uppi röklausum áróðri fyrir þessu meingallaða kerfi sem ESB býður upp á.

Finnst samt einhvernveginn að menn ættu að geta náð þessari yfirsýn ef þeir vilja titla sig prófessora.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.7.2009 kl. 17:12

6 Smámynd: Dúa

M.a.s. prófessorar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér

Dúa, 7.7.2009 kl. 18:38

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Jakobína.

Þessi pistill fer í minnisbankann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.7.2009 kl. 18:45

8 identicon

Undrast hve þú ert oft orðljót og rætin í garð tilgreindra persóna, Jakobína, sem t.d. hafa ekki gert annað en tjá skoðanir sínar eftir sinni bestu sannfæringu og í þessu tilviki yfirgripsmikla þekkingu og áralangar rannsóknir á efninu.

H (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 21:00

9 Smámynd: Einar Ólafsson

Takk Jakobína, ég las þennan pistil í Fréttablaðinu í morgun og var strax kominn með í kollinn svar í átt að þessu sem þú skrifar. Vil kannski bæta við, af því að hann talar um hernaðaröryggið af aðildinni að NATO, að ég hef aldrei séð þörfina á að vera í því hernaðarheimsvaldabandalagi nema við ætlum að haga okkur í samræmi við það, t.d. með því að styðja innrásir og valdarán. Og við þurfum ekki heldur að vera í bandalagi eins og ESB ef við högum efnahagsmálum okkar af skynsemi og eðlilegri hófsemi með eðlilegum samskiptum við önnur lönd.

Einar Ólafsson, 7.7.2009 kl. 22:34

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ágæti H ég undrast að þú skulir ekki hafa burði til þess að skrifa undir nafni þegar þú nafngreinir aðra. Ég er ekkert orðljót. Nota orð sem hæfa tilefninu hverju sinni. Annars þætti mér ágætt ef þú telfdir fram lista með ljótum orðum. Í mínum huga er orð tákn um merkingu og ber að nota þau til að koma merkingum á framfæri.

Margir vilja að viss hluti orðaforðans sé þurrkaður út um þessar mundir kannski til þess að inntak ákveðinna hluta komist ekki vel til skila.

Ég get ekki séð að í umræddri grein sé yfirgripsmikilli þekkingu komið á framfæri né heldur að fullyrðingar í henni byggi á rannsóknum.

Þá er innlegg þitt litlu skárra þe þú fullyrðir án þess að bakka upp það sem þú segir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.7.2009 kl. 23:52

11 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Ætli Baldur fái greitt úr áróðurssjóðum ESB? Kannski er þessi grein liður í umsókn um að fá styrk úr slíkum sjóð.

Ég hef aldrei skilið hvernig menn getað gasprað um efnahagslegt öryggi í einni setningu og talað svo fyrir frjálsu flæði fjármagns.

Ég hef litið svo á að frjálst flæði fjármagns  dragi fyrst og fremst úr valdi kjörinna stjórnvalda til alþjóða auðhringa og stuðli að gríðarlegum óstöðugleika. Var ekki íslenska bankakerfið keyrt meðal annars áfram af stjarnfræðilegum erlendum lántökum. 

Baldur virðist átta sig á að frjálst fjármagnsflæði valdi óstöðugleika en greinin gengur út á að tala fyrir inngöngu í ríkjasamband, þar sem frjálst flæði fjármagns er einn af hornsteinunum. Ætli hann átti sig á þeirri þversögn?

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 8.7.2009 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband