Mannvitsbrekkur í embættum

Ekki kom annað til greina en að losa sig við Davíð Oddson úr Seðlabankanum eftir að hann hafði stungið 520 milljörðum (í erlendum gjaldeyri) að Kaupþingi. Vissulega hefur hann glatt Ólaf Ólafson en landsmenn sátu eftir hnípnir með þá fáu aura sem eftir sátu í gjaldeyrisgeymslunni.

Jóhanna þurfti að semja ný lög til þess að losa sig við Davíð og í leiðinni voru sett inn ákvæði sem áttu að tryggja vandaðri vinnubrögð við val á seðlabankastjóra. Skipuð var nefnd til þess að meta hæfi umsækjanda um stöðu seðlabankastjóra. Nítíu og tveggja ára ellilífeyrisþegi var settur í forsvar fyrir nefndina. já mér er alvara.

Metin var hæfastur umsækjenda Már Guðmundsson. Ég hugsaði með mér að maðurinn hlyti að vera algjör mannvitsbrekka og með hreinan skjöld eins og hvítvoðungur. Þekki manninn ekki neitt en taldi það bara hljóta að vera að hann hefði staðist ýmsar prófraunir í flóknum rökfræðilegum viðfangsefnum og sýnt mannkosti í hvívetna.

Mér krossbrá þess vegna þegar ég las eftirfarandi ummæli höfð eftir Má þessum:

Ég veit hins vegar ekki hvernig fólki dettur í hug að peningastefnan hafi skipt sköpum um hvernig fór fyrir íslenska bankakerfinu,” segir Már og bendir á að ef það væri meginástæðan þá væru bankakerfin í Brasilíu, Chile, Ástralíu, Noregi, Nýja-Sjálandi og ótal fleiri löndum einnig hrunin.

Ég spyr nú bara voru aðstæður á Íslandi eitthvað líkar því sem þær voru í Brasilíu, Chile, Ástralíu, Noregi og Nýja-Sjálandi. Eða skipta aðstæður engu máli við mótun peningastefnu. Samanburðurinn sem Már gerir þarna bendir til vanþekkingar á grundvallaratriðum í mótun peningastefnu sem og hverrar annarrar stefnu, þ.e. að taka þurfi tillit til aðstæðna við mótun stefnu.

Ég hugsaði auðvitað með mér að það gæti varla verið að stjórnvöld hafi verið að ráða annan vitleysing í stöðu seðlabankastjóra svo ég fór að skoða hvað fjölmiðlar hafa sagt um þessa ráðningu. En persónulega er ég búin að fá nóg af vitleysingum í embættum sem skipta máli fyrir þjóðina.

Ég fann þetta á Pressunni

Hann er einn af höfundum þeirrar peningastefnu, sem leiddi til þess að Seðlabanki Íslands hækkaði vexti upp úr öllu valdi í baráttu við ímyndaða verðbólgu, sem aftur leiddi til þess að íslenska krónan hækkaði upp í hæstu hæðir og varð skotmark spákaupmanna. Þessi sterka króna studdi vel við útrásina í árdaga en stuðlaði að gríðarlegu ójafnvægi í viðskiptajöfnuði þjóðarinnar auk þess sem gjaldeyrisskiptasamningar blómstruðu og ýktu enn styrkleika krónunnar á meðan allt var í lukkunnar velstandi. (...)

og

Það vekur ugg að Már Guðmundsson, sem hlýtur að hafa fylgst með atburðarásinni á Íslandi úr fjarlægð hið minnsta, skuli í samtali við Fréttablaðið í morgun lýsa því yfir að hann telji peningastefnuna ekki hafa skipt sköpum í bankahruninu. Vissulega er ekki rétt að setja alla sök á peningastefnu Seðlabankans en það er fráleitt að annað en að setja mikla ábyrgð á þá stefnu og framkvæmd hennar.

Að undanförnu hefur verið mikið um það talað að nýir vendir sópi best og mikilvægt sé að reyna ekki að breiða yfir mistök, sem gerð hafa verið.

Það er skelfilegt til þess að hugsa að nú er Jóhanna Sigurðardóttir e.t.v. búin að ráða í stöðu seðlabankastjóra mann, sem hefur það efst á sinni verkefnaskrá að hvítþvo fyrri verk sín og samverkamanna sinna í Seðlabankanum.

Við þurfum ekki á slíku að halda, og megum raunar ekki við því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband